Nýjum tillögum um stjórnarskrárbreytingar skilað til Katrínar

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þremur greinargerðum fjögurra sérfræðinga sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fól að taka saman um þá kafla stjórnarskrárinnar sem fjalla um Alþingi, dómstóla og mannréttindi hefur verið skilað inn til ráðuneytisins.

Er þar meðal annars lagt til að gerðar verði breytingar á stjórnarskrá varðandi að Alþingi úrskurði ekki sjálft um gildi alþingiskosninga, að hnykkt verði á sjálfstæði dómstóla og skerpt á eftirlitshlutverki dómsvalds gagnvart framkvæmda- og löggjafavaldi og að breytingar komi inn í mannréttindakafla varðandi er varða auðlindir, umhverfi og eignarétt.

Í því felast breytingar á frumvarpi því sem forsætisráðherra hafði flutt á á Alþingi fyrir síðustu kosningar. Snúa þær m.a. að því auðlindir skuli nýttar á sjálfbæran og hagkvæman hátt landsmönnum og tiltekinni einföldun á umhverfisverndarákvæðinu. Einnig leggja sérfræðingarnir til að bundin verði í stjórnaskrá og bætt við eignarréttarákvæðið meginreglu um að eignarréttur verði ekki skertur nema í almannaþágu og á grundvelli lagaheimildar. Þá er lagt til að ný ákvæði um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga komi í stjórnarskrá í ljósi þróunar í upplýsingatækni.

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu kemur fram að greinargerðirnar séu liður í heildaráætlun um endurskoðun stjórnarskrárinnar á tveimur kjörtímabilum, en vinnan hófst árið 2018 í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Í framhaldinu mun forsætisráðherra leita samstarfs við fræðasamfélagið og aðra aðila um umræðu og umfjöllun um tillögurnar. Þá ætlar ráðherra einnig að kanna hljómgrunn hjá öðrum formönnum stjórnarflokkanna fyrir því að standa saman að tillögum um breytingar á stjórnarskránni.

Það var Þórður Bogason hæstaréttarlögmaður sem vann greinargerð um IV. kafla stjórnarskrárinnar sem fjallar um Alþingi. Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, vann greinargerð um V. kafla sem fjallar um dómstóla og Róbert Spanó, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og fyrrverandi forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, og VAlgerður Sólnes, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, unnu greinargerð um mannréttindakaflann.

Hægt er að skoða nánar hverja greinargerð fyrir sig hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert