Þingmenn missáttir við væntanlegar breytingar

Alþingi. Alþingishúsið. Þinghúsið.
Alþingi. Alþingishúsið. Þinghúsið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samkvæmt samkomulagi ríkisstjórnarflokkanna verða breytingar á formennsku í fastanefndum Alþingis á miðju kjörtímabili og munu þær verða endanlega ákveðnar um komandi helgi. Búist er við að niðurstaðan verði kunngjörð á mánudaginn.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru þingmenn missáttir við væntanlegar breytingar, enda hefur málið verið að taka ýmsum vendingum undanfarna daga, en mun þó vera að taka á sig skýrari mynd.

Þó er ljóst að formennska í utanríkismálanefnd færist frá Vinstri grænum yfir til Sjálfstæðisflokksins. Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, hefur gegnt formennsku í nefndinni það sem af er þessu kjörtímabili, en búist er við að Diljá Mist Einarsdóttir taki við formennskunni af Bjarna, en hún hefur verið 1. varaformaður nefndarinnar það sem af er yfirstandandi kjörtímabili.

Formennska í umhverfis- og samgöngunefnd til VG

Búist er við að Bjarni taki við formennsku í umhverfis- og samgöngunefnd af Vilhjálmi Árnasyni þingmanni Sjálfstæðisflokksins.

Þá verða breytingar í atvinnuveganefnd, en gert er ráð fyrir að Stefán Vagn Stefánsson, Framsóknarflokki, láti þar af formennsku, en við keflinu taki annar framsóknarmaður og er Þórarinn Ingi Pétursson líklegastur talinn til að hreppa hnossið. Hins vegar er búist við að Stefán Vagn taki við formennsku í fjárlaganefnd af Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, þingmanni Vinstri grænna. Hún muni aftur á móti taka við formennsku í velferðarnefnd af framsóknarkonunni Líneik Önnu Sævarsdóttur, að því er heimildir blaðsins herma.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert