Áform um sameiningu „virðingarleysi“

Jón Már lét af störfum sem skólameistari Menntaskólans á Akureyri …
Jón Már lét af störfum sem skólameistari Menntaskólans á Akureyri á síðasta ári. Samsett mynd/Margrét Þóra-Sigurður Bogi

Fyrrverandi skólameistari Menntaskólans á Akureyri segir skýrslu stýrihóps mennta-og barnamálaráðherra um eflingu framhaldsskóla „vægast sagt vafasama forsendu fyrir því að leggja skólana niður.“

Ásmundur Einar Daðason, mennta-og barnamálaráðherra, tilkynnti nemendum og kennurum MA og VMA um sameiningu skólanna á fundi sem haldinn var á þriðjudag í síðustu viku. 

„Það er nú margt um þau áform að segja.“

Svona hefst samtal blaðamanns við Jón Má Héðinsson þegar hann er spurður út í áformin. Jón Már lét af störfum sem skólameistari MA á síðasta ári, eftir fjörutíu og tvö ár í starfi og þar af nítján ár sem skólameistari. 

Stendur með nemendum og starfsfólki

„Í stuttu máli þá stend ég af heilum hug með nemendum og starfsfólki Menntaskólans á Akureyri á móti þessum sameiningaráformum. Þessi áform eru virðingarleysi við það öfluga nám og starf sem unnið er í báðum skólunum.

Auk þess tek ég undir það sem formaður framhaldsskólakennara segir um skýrslu sem er lögð er til grundvallar þessum hugmyndum og áformum, að þar hafi menn bara búið til tölur og röklausar fullyrðingar sem staðreyndir, sem skýrsluhöfundar gefa sér svo sem einhvern útgangspunkt,“ segir Jón Már. 

Til útskýringar segir hann ýmislegt fullyrt í skýrslunni sem á að vera frá hans tíð, til að mynda varðandi rekstur, hreinlega rangt. Enda MA alla tíð verið vel rekinn bóknámsskóli, innan fjárheimilda. Það er sveigjanleiki í bekkjakerfinu í MA og skólinn hefur verið í fremstu röð í námi og kennslu með samþættingu námsgreina, öflugu tungumálanámi og raungreinakennslu.

Jón Már segir nemendur sem koma í MA sækjast eftir …
Jón Már segir nemendur sem koma í MA sækjast eftir líflegu félagslífi, námi og bekkjakerfi. mbl.is/Þorgeir

Skýrslan vafasöm forsenda 

„Þegar nemendur MA eru spurðir hvers vegna komstu í MA þá er efst á blaði, félagslíf, nám og bekkjakerfi,“ segir Jón Már og spyr hvert þessir nemendur komi til með fara ef MA hverfur á braut.  

„Það er furðulegt hvernig skýrsluhöfundar og embættisfólk ráðuneytis hafa kokkað upp þessa skýrslu og telja ráðherra trú um að þessi árás, á þessa tvo skóla, auki farsæld og valmöguleika nemenda. Hér liggur annað að baki sem ekki er sagt og það er ekki heiðarlegt.“

Honum þykir undarlegt að nú eigi að fórna þeirri menningu og trausti, sem skólarnir hafa byggt upp í marga áratugi, til þess eins að leggja niður þessa öflugu skóla á vægast sagt vafasömum forsendum. 

Skólamenning og skólabragur

Til viðbótar nefnir Jón Már að virtustu skólar í heimi byggi á skólamenningu, skólabrag og virtum hefðum, enda felist menntun og skólauppeldi í því að viðhalda skólabrag, gagnrýnni hugsun, virðingu og víðsýni. 

„Í skólunum er lögð áhersla á að undirbúa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi, með því að taka þátt í félagsstarfi, þar sem nemendum er treyst og þeir upplifa að traust og virðing eflir þá og eykur víðsýni þeirra. Í þessu felst uppeldi og þroski, þar sem nemendur taka námið úr skólastofunum og praktísera það í sínu skólasamfélagi og áfram út í lífið. Ég hef þá trú að nemendur og starfsfólk MA og VMA verjist þessari atlögu og láti ekki etja sér saman sem andstæðingum.

Nemendum skólanna þykir vænt um sinn skóla og það sem þeir standa fyrir, skólinn þeirra skiptir þá máli. Það er illt þegar menn gera lítið úr tilfinningum nemenda og væntumþykju þeirra fyrir sinni skólamenningu og hálfpartinn gera grín að. Ég veit ekki hvaða erindi slíkt skólafólk á upp á dekk,“ segir Jón Már sem ber mikla virðingu fyrir skólamenningu og hefðum.

Hann gefur því lítið fyrir meiningu þeirra sem segja að skólamenningu og hefðir komi ekki í veg fyrir sameininguna.

Það eru kannski þeir sem hugsa skóla sem excel-skjal, sem láta sér detta svona bull í hug. Það er ekki sjálfgefið að skólar njóti trausts og virðingar og að nemendur vilji koma í þessa skóla og foreldrar treysti starfsfólki þeirra fyrir börnum sínum, það tekur langan tíma að vinna slíkt traust. Nemendur sækjast eftir því að komast í skóla eins og þessa tvo, sem hafa þegar þróað með sér samstarf og nær væri að efla það enn frekar,“ segir hann. 

Gott samstarf milli skólanna 

Jón Már segir langa hefð fyrir samstarfi skólanna á Norðurlandi. Til að mynda hafi ráðuneyti menntamála ráðgert að sameina skólana vorið 2015, en þá stóðu skólameistarar skólanna saman gegn áformunum og sannfærðu þáverandi menntamálaráðherra um að mun farsælla væri að auka samstarf milli skólanna.

„Þáverandi menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson, hafði kjark til að hlusta á sitt fólk, starfsfólk og nemendur skólanna og skipta um skoðun. Hann sá að það væri skynsamlegra að efla samstarf heldur en að sameina skólanna og það varð raunin,“ segir Jón Már. 

„Skólarnir fimm, SAMNOR-skólarnir hafa eflt samstarfið, kynnt námsframboð skólanna saman og sýnt fram á fjölbreytilegt nám fyrir alla, þannig að SAMNOR svarar þeirri spurningu hvernig á að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda til að auka farsæld þeirra í námi. Það er allt í boði í skólunum fimm. Ég hvet ráðherra til að kynna sér sjálfur markmið og verkefni SAMNOR, þá mun hann sjá að það er til mun „framsóknarlegri“ leið en sú sem hann er að fara, það er samstarf og samvinna,“ segir hann og bætir við:

„Samstarf er mun skynsamlegri leið,“ enda yrðu ekki margir skólar eftir á landsbyggðinni ef viðmið um nemendafjölda er 1.500 -1.800 manns til að skólarnir verði rekstrarbærir. 

Offorsið meira núna

Umræðan er þannig gömul saga og ný, segir Jón Már. „Þetta eru sömu hótanir og hafðar voru uppi vorið 2015, orðræðan kunnugleg en offorsið virðist meira nú. Það virðist sem búið sé að ráðstafa þessum 400 milljónum sem sparast í annað en þessa skóla. Árið 2015 var sagt: „Ef þið gerið þetta ekki sjálf þá mun ráðuneytið sameina ykkur.“

Því er líka hótað núna segir Jón Már sem hvetur nemendur og starfsfólk skólanna til að standa saman, treysta SAMNOR-böndin og fá félaga á landsbyggðinni með í lið til að kveða þetta niður, enda ljóst hvert ráðuneytið stefnir í þessum málum.

Eru hendur skólameistaranna þá bundnar að einhverju leyti?

„Þær eru ekkert bundnar. Skólameistarar eiga að standa vörð um skólann sinn, standa vörð um nemendur sína og starfsfólkið. Því skólinn er nemendur og starfsfólk og sú skólamenning sem skólinn stendur fyrir.“

„Minni samstaða meðal skólameistara“

Hvers vegna heldur þú að ráðherra og ráðuneyti fari af stað með þessar ætlanir?

„Þar er margt sem kemur til, eitt er að þær hugmyndir sem voru uppi árið 2015, voru ekki lagðar til hliðar innan ráðuneytisins á þeim tíma. Mér virðist minni samstaða meðal skólameistara, það hefur verið mikil endurnýjun í þeirra hópi á skömmum tíma og mikil skólareynsla horfið, þá er talið lag að etja skólunum saman. Allt regluverk í kringum fjárveitingar til skólanna er loðið og óljóst. Sem dæmi þá breytir ráðuneytið gjarnan leikreglum í miðjum leik eins og kemur fram í umræðu um nemendatölur og fjárveitingu til MA síðasta skólaár. MA hafði fullt leyfi til að taka inn alla nemendur sem sóttu um skólann vorið 2022 og skólinn átti að fá fjárveitingu með þeim, sem virðast ekki hafa skilað sér, en það er ljóst að kostnaður við þessa nemendur hverfur ekki.

Kannski er megin ástæða fyrir þessum endurteknu aðgerðum, að það er ekki til skólasýn og skólastefna fyrir Ísland, hvernig skólastarf og skóla við viljum hafa í landinu. Á meðan svo er má búast við að ráðherrar hlaupi upp með svona gerræði á fjögurra ára fresti“.

Láti ekki kúga sig til hlýðni

Jón Már er ánægður með nemendur skólanna. Hann er stoltur af formanni skólafélags MA, hún og allir nemendur skólans hafa staðið upp og sagt sína skoðun. Hann segir nemendur skólans hafa gert það áður og vonar að þeir láti ekkert kæfa sig í sinni baráttu, það á að hlusta á nemendur. Nemendur þurfa að benda stjórnmálafólki á að nú fari að styttast í þingkosningar. 

„Ég vona að nemendur láti ekki þetta svokallaða fullorðna fólk kúga sig til hlýðni í svona vitleysu,“ segir Jón Már að lokum og sendir baráttukveðjur til nemenda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka