Hátt í 40 manns söfnuðust saman fyrir utan mennta- og barnamálaráðuneytið í morgun til að afhenda Ásmundi Einari Daðasyni ráðherra undirskriftalista til að mótmæla ákvörðun hans um að sameina Menntaskólann á Akureyri og Verkmenntaskólann á Akureyri.
Alls söfnuðust 4677 undirskriftir. Krista Sól Guðjónsdóttir, forseti Hugins, skólafélags Menntaskólans á Akureyri, býst ekki við því að ráðherra skoði listann.
„Hann sagðist ætla að kíkja norður eftir helgi og að listinn verði til skoðunar. En ég efast um að hann fari að kíkja á þennan lista. Hann fer örugglega neðst í skúffuna eða í ruslið,“ segir Krista Sól í samtali við mbl.is.
Spurð hvort hún sé bjartsýn á að ráðherra muni endurskoða ákvörðun sína segir Krista Sól:
„Ég held að hann eigi engra annarra kosta völ núna. Þetta var kannski vafamál þegar að þetta var bara skólafélagið sem var að berjast fyrir þessu. Núna erum við að tala um skólafélagið, bæði kennarafélögin á Akureyri, skólameistara Menntaskólans á Akureyri, atvinnulífið á Akureyri og Félag framhaldsskólakennara. Þetta er orðið svo mikið að ég held að hann eigi bara engra annarra kosta völ en að endurskoða þetta.“
Í gær var greint frá því að Karl Frímannsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri, hafi sagt sig frá sameiningarvinnunni. Krista Sól er ánægð með ákvörðun Karls.
„Það er frábært að vera með skólameistara sem að stendur með því sem hann trúir,“ segir Krista Sól.