Mjög mikil hækkun fyrir bílaeigendur

Bifreiðagjöld hækka um 3,5% á næsta ári.
Bifreiðagjöld hækka um 3,5% á næsta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórnvöld eru að hækka bifreiðargjöld um of, að sögn framkvæmdastjóra Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB). Hann segir það vera óboðlegt að enn séu þættir í nýju fjárlagafrumvarpi skildir eftir í óvissu.

Samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi sem kynnt var í vikunni munu bifreiðagjöld hækka um 3,5% á næsta ári en auk þeirrar hækkunar er boðuð hækkun á lágmarki gjaldsins sem lagt er á fólksbíla. Það fer þá úr 15.080 kr. í 20.000 kr. á hvern bíl. Á sú hækkun að skila ríkinu 1,3 milljörðum kr. í viðbótartekjur á næsta ári.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB. mbl.is/Árni Sæberg

Grunngjaldið hækkað verulega

„Þetta er mjög mikil hækkun,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, í samtali við mbl.is. „Á síðasta ári var grunngjaldið hækkað verulega, auk þess sem hækkað var miðað við verðlagsstuðla. Þannig þetta er veruleg hækkun á milli ára, á sama tíma og að það er samdráttur í framkvæmdafé til Vegagerðarinnar.“

Þá bendir hann einnig á að áætlanir ríkissjóðs varðandi tekjur af bílum og umferð á þessu ári hafi verið miklu lægri en rauntekjur virðast ætla vera, miðað við þá frumvarpið fyrir þetta ár. Sem dæmi nefnir hann að í fjárlagafrumvarpi fyrir þetta ár hafi tekjur af bifreiðargjaldi, eldsneytisgjöldum og innflutningsgjöldum ökutækja vaxið um rífleg 15% umfram það sem ætlað var í samþykktu frumvarpinu.

Vilja umturna skattheimtu á ökutækjum

„Við hjá FÍB lögðum til fyrr á árinu að alveg umturna skattheimtu á ökutækjum. Það yrði farið út í kílómetragjaldtöku á öll ökutæki og þar með væru líka felld niður eldsneytisgjöld og bifreiðargjaldið,“ segir Runólfur.

Stjórnvöld áforma nú aftur á móti að setja einhvers konar kílómetragjald á hreinorkubíla en „það er miður að þau skuli ekki hafa farið alla leið“.

„Það reyndar liggur ekki fyrir hvernig eigi að leysa úr þessu kílómetragjaldi. Það hlýtur að koma fram á næstunni.“

Runólfur kynnti tillögur FÍB um útfærslu á kílómetragjaldi fyrr á …
Runólfur kynnti tillögur FÍB um útfærslu á kílómetragjaldi fyrr á árinu. mbl.is/Árni Sæberg

Mikil óvissa og óboðleg stjórnsýsla

„Þetta skapar vissulega óvissu fyrir kaupendur og söluaðila,“ segir Runólfur „Þarna eru líka óákveðin útgjöld. Það er talað um það að það verði einhverskonar ívilnun á kaup raforkubíla. En það virðist vera hluti af einhverjum potti sem í verður ýmislegt annað – uppbygging innviða varðandi rafbílahleðslur, styrkir vegna árangurs fyrirtækja við að draga úr koltvísýringslosun,“ segir hann og bendir á að enn eigi eftir að útfæra hversu miklir fjármunir eigi að fara til neytenda sem eru t.d. að kaupa sér rafbíl.

„Það er ekki boðleg stjórnsýsla að vinna með svona „stefnt er að“ og „og vonast er til“ því auðvitað á þetta að liggja fyrir með löngum fyrirvara. Fólk í rekstri þarf að gera áætlanir, pantanir og svo framvegis. Það er þarna einhver óvissuþáttur sem er allt of stór sem er skilin eftir, núna í septembermánuði, galopinn,“ segir hann og bendir á að mikil óvissa skapist fyrir neytendur, t.d. um hversu mikið bílaverð hækkar um áramót.

„Þetta er skilið eftir í óvissu. Þetta er ekki góð stjórnsýsla.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka