„Þetta er bara byrjunin á þessari gríðarlegu eyðileggingu sem mun eiga sér stað,“ segir Helga Kristín Gunnarsdóttir, talsmaður Vina Vatnsendahvarfs, um þriðja áfanga framkvæmda við Arnarnesveg.
Tveggja til þriggja metra djúp gryfja hafi sést efst í skíðabrekkunni þar í gær en í kjölfarið setti Vegagerðin upp borða til varnaðar.
„Þetta var náttúrulega hættusvæði. Þetta er byrjunin á þessari gríðarlegu eyðileggingu sem mun eiga sér stað. Íbúar eru að vakna upp við vondan draum,“ segir Helga við mbl.is.
Hópurinn hefur mótmælt framkvæmdunum þar sem þær raski Vatnsendahvarfi og leysi engan umferðarvanda.
„Við fórum þarna í gær og þá var búið að setja borða með appelsínugulum þríhyrningum. Þeir eru búnir að loka fyrir það sem var göngustígur og gönguleið sem borgin setti upp og kostaði nú einhvern pening fyrir nokkrum árum. Þetta er slóði sem leiðir inn í Kópavog og fólk hefur nýtt sér mikið. Það vantar algjörlega þessa tengingu þarna. Þetta gerist fyrirvaralaust og í raun búið að ryðja burt hluta af skíðabrekkunni sem slóðinn lá í gegnum. Þetta var náttúrulega hættusvæði. Þetta er bara byrjunin á þessari gríðarlegu eyðileggingu sem mun eiga sér stað.“
Helga segir framkvæmdirnar bagalegar, sérstaklega í ljósi þess að skíðabrekkan verði ekki nothæf næstu tvo vetur.
„Íbúar eru að vakna upp við vondan draum, sérstaklega í ljósi þess að þessi skíðabrekka verður ekki nothæf í vetur. Það var lagt upp með að það yrði bara einn vetur þar sem fólk yrði án skíðabrekkunnar en nú virðist það ætla að verða miklu lengri tími.“
Spurð hvort skýringar hafi verið gefnar á því segir hún:
„Nei í rauninni ekki. Það sem okkur grunaði allan tímann var að í Vetrargarðurinn væri góð afsökun fyrir þessum framkvæmdum. Það er gríðarlega mikið magn af jarðvegi sem þarf að losa fyrir þessar framkvæmdir. Og það myndi kosta rosalegar upphæðir að keyra þetta í burtu og koma þessu fyrir annars staðar. En þarna er hægt að keyra með þetta yfir í skíðabrekkuna eða á það svæði og henda þessu á trén og náttúruna sem er þar. Þeir eru bara að búa til gríðarstóra moldarhauga.“
Helga segist vonast til þess að allt takist vel á endanum en upplýsingagjöf til íbúanna í ferlinu sé verulega ábótavant. Óskiljanlegt sé að ráðist sé í ljósastýrð gatnamót fyrir sjö milljarða líkt og hópurinn hefur bent á.
„Við munum halda áfram að benda á þessa vankanta. Á endanum er verið að verja gríðarlegum fjárhæðum í vegaframkvæmd sem er ekki að fara að leysa nein vandamál.“