Lögregla hafði afskipti af fólki undir lögaldri á skemmtistöðum í Reykjavík og í Kópavogi í nótt. Þá var lögreglu tilkynnt um líkamsárás í Hlíðunum.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Í Grafarvogi var brotist inn í skóla, en frekari upplýsingar um málið eru ekki veittar í dagbók lögreglu.
Í Gerðunum var lögreglu tilkynnt um rafhlaupahjólaslys. Þar hafði einstaklingur fallið í jörðina og var hann fluttur á bráðamóttöku til skoðunar.
Í Breiðholti var einnig tilkynnt um rafhlaupahjólaslys, en þar hafði einstaklingur einnig fallið af hjóli og var fluttur á bráðamóttöku til skoðunar.
Þá sinnti lögregla útkalli í strætisvagni. Þar hafði strætóbílstjóri óskað eftir aðstoð vegna einstaklings sem svaf ölvunarsvefni í vagninum hans en bílstjóranum tókst ekki að vekja hann. Lögreglumenn náðu að vekja einstaklinginn og hélt hann í kjölfarið sína leið.
Í Kópavogi óskaði einstaklingur eftir aðstoð lögrelgu eftir að ekið var á hann en ökumaður bifreiðarinnar ók af vettvangi án þess að gera viðeigandi ráðstafanir. Ekki er vitað um alvarleika áverka.