„Það hafa engar ákvarðanir um sameiningu eða lokun verið teknar né erum við á öldrunarsviði að vinna að nokkru slíku,“ segir Anna Sigrún Baldursdóttir, leiðtogi öldrunarmála hjá Reykjavíkurborg.
Greint var frá því í Morgunblaðinu á föstudag að eldri borgarar í Árbæ hefðu sent frá sér neyðarkall vegna „síendurtekinna“ hótana um að félagsmiðstöð hverfisins í Hraunbæ 105 verði lokað. Virtust þeir óttast að breyta ætti umræddu húsnæði í skrifstofuhúsnæði og sameina félagsmiðstöð hverfisins annarri félagsmiðstöð.
Anna Sigrún segist hafa fengið bréf frá umræddum hópi eldri borgara þar sem þessar áhyggjur voru viðraðar og þess óskað að látið yrði af umræddum áformum. „Ég hef svarað þessu bréfi og sagt þeim að það hafi ekki komið inn á okkar borð að sameina eða loka umræddri félagsmiðstöð. Ég vona að svarið rói þau enda veit ég að þetta er starf sem er þeim mikilvægt.“
Nánar má lesa um málið í laugardagsblaði Morgunblaðsins.