Veðurstofa Íslands hefur gefið út gula veðurviðvörun fyrir Austurland á morgun. Tekur hún gildi klukkan níu í fyrra málið og gildir til miðnættis á þriðjudag. Viðvörunin er gefin út vegna mikillar úrkomu á svæðinu en með morgninum tekur úrkomuákefð að aukast.
Gert er ráð fyrir um 150 mm úrkomu á einum sólarhring en meira en 300 mm úrkomu á 48 klukkustundum.
„Vatnshæð í borholum á Eskifirði og Seyðisfirði er mjög lág eftir sumarið en létt rigning undanfarna daga hefur gert það að verkum að efsti hluti jarðvegarins er ekki alveg þurr. Því ætti jarðvegurinn að geta tekið vel við nokkru magni af úrkomu en úrkomuákefð hefur talsverð áhrif á það hvort vatn nær að hripa niður í jarðveginn en þurr jarðvegur hefur tilhneigingu til að taka verr við ákafri úrkomu,“ segir í tilkynningu á vef Veðurstofunnar.
Þar segir enn fremur að hitastig sé enn vel yfir frostmarki og ráð sé gert fyrir að það rigni í fjöll, þó slydda gæti fallið í allra efstu tindana.
„Gera má ráð fyrir að mesta úrkoman falli til fjalla og valdi vatnavöxtum í farvegum en líkur á aurskriðum aukast við þær aðstæður.“
Lögreglan á Austurlandi varaði sömuleiðis við veðrinu í færslu á Facebook og hvatti íbúa til að fara að öllu með gát og huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón.