„Ljósan mín hefur miklar áhyggjur af andlegu heilsunni minni,“ segir Eyrún Guðmundsdóttir, grunnskólakennari á höfuðborgarsvæðinu, en eiginmanni Eyrúnar hefur ítrekað verið neitað um landvistarleyfi á Íslandi, þrátt fyrir að eiga hér eiginkonu og ófætt barn.
Eiginmaður Eyrúnar, Revazi Shaverdashvili, er upprunalega frá Georgíu og dvelur þar nú á meðan hann bíður eftir úrskurði kærunefndar Útlendingastofnunar.
Erlendir ríkisborgarar sem giftist íslenskum ríkisborgurum eigum reglum samkvæmt að fá hér landvistarleyfi. En Útlendingastofnun taldi grun liggja á að Eyrún og Revazi hefðu stofnað til málamyndunarhjúskapar.
Mbl.is greindi frá máli Revazi í nóvember á síðasta ári, en stóð þá til að vísa honum úr landi eftir að framlengingu á dvalarleyfi hans var hafnað. Hafði hann þá viku til að yfirgefa landið frá því að honum barst tilkynningin.
Var Eyrún barnshafandi á þeim tíma og hafði samband við Útlendingastofnun til að greina þeim frá stöðu þeirra hjóna.
„Ég fæ svör frá þeim um að, að því að ég væri ólétt, að þá þyrftum við ekki að fara út,“ segir Eyrún.
Þau hjónin hafa þó ekki átt sjö dagana sæla og misstu ófætt barn sitt í desember. Ekkert heyrðist frá Útlendingastofnun og sóttu þau því aftur um landvistarleyfi fyrir Revazi í janúar. Höfnun við umsókninni barst í apríl.
„Við kærðum þann úrskurð til kærunefndar og erum bara að bíða eftir því,“ segir Eyrún enda hafði þeim verið sagt af starfsmanni Útlendingastofnunar að Revazi þyrfti ekki að yfirgefa landið.
Hún segir meðferð kærunefndar á málinu eiga að taka um 3-4 mánuði en nú sé liðnir rúmlega það. Henni þyki þó líklegt að þau séu byrjuð að skoða málið þar sem nýlega hafi verið beðið um auka fylgigögn.
Aðspurð kveðst hún ekki telja um einsdæmi að ræða að einstaklingi með svo sterk tengsl sé vísað úr landi. Hún hafi heyrt frá annarri móður að Útlendingastofnun hefði tjáð henni að erlendur barnsfaðir hennar gæti bara hitt barnið á þriggja mánaða fresti.
Einnig nefnir hún sem dæmi konu sem hafi lent í því í Leifsstöð að eiginmanni hennar og föður þriggja barna hennar hafi nær verið snúið aftur til Bandaríkjanna í Leifsstöð. Það mál hafi hins vegar verið auðleyst vegna tengsla konunnar.
„Ef þú þekkir einhvern þá ertu í betri stöðu en ef þú þekkir engan.“
Hún segir aðstæðurnar gríðarlega erfiðar, sérstaklega vegna þess að hún þurfi nú að ganga í gegn um meðgönguna ein. Ekkert liggi fyrir um hvenær málsmeðferð ljúki og von sé á dóttur þeirra 23. desember.
„Það er erfitt að vera ein í þessu og maður veit ekki neitt. Fær hann að koma og vera á meðgöngutímanum sem ég þarf mest á honum að halda,“ segir Eyrún en hún óttast einnig að þurfa fæða dótturina ein.
„Mér finnst líka verið að brjóta á réttindum barnsins okkar, hún fær mögulega ekki að hitta pabba sinn fyrr en hún verður 7 vikna,“ en hún myndi þurfa að ferðast með dótturina til að leyfa Revazi að hitta hana.
Hún segir erfitt að plana og hlakka til þegar óvissan hangi yfir henni. Hún hafi farið út með Revazi til Georgíu en á endanum þurft að snúa aftur heim til Íslands. Hún hafi grátið og hrokkið upp á nóttunni við tilhugsunina um að snúa aftur til Íslands án eiginmannsins.
Hún finni þó enn fyrir miklum stuðningi frá eiginmanninum þrátt fyrir að land og sjór aðskilji þau.
„Hann er alltaf að róa mig að því ég er að fríka út,“ segir Eyrún. „Stundum er nóg bara að hlusta á talskilaboð og bara heyra röddina.“