Appelsínugul viðvörun og skriðuhætta

Úrkomuspáin á landinu kl. 21 í kvöld.
Úrkomuspáin á landinu kl. 21 í kvöld. Kort/Veðurstofa Íslands

Appelsínugul viðvörun verður í gildi á Austfjörðum á morgun að öllu óbreyttu vegna ákafrar úrkomu. Veðurstofan varar við aukinni hættu á skriðuföllum á Austfjörðum og Austurlandi.

Gul viðvörun tók gildi klukkan 10.30 í morgun á Austurlandi en talsverð rigning er á svæðinu. Almannavarnir funda um stöðuna síðar í dag.

Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir aukið afrennsli með tilheyrandi vatnavöxtum í ám og lækjum geta valdið talsverðu tjóni í dag. Fólk sé því hvatt til að að hreinsa frá niðurföllum til að forðast vatnstjón. 

Talið er að rigningarveðrið færist talsvert í aukana á miðnætti í kvöld og haldi áfram að miðnætti á morgun.  

Vegir gætu farið í sundur

„Í dag er úrkoman að byggja sig upp og það er að safnast í árnar og á götunum. Við erum að vona að fólk hreinsi vel frá niðurföllum og fylgist vel með heima hjá sér og í nærumhverfinu,“ segir Þorsteinn en hætta getur orðið á að vatn flæði í kjallara. 

Hann segir hins vegar allt orðið vatnsósa í nótt sem geti valdið skriðum, sem geti valdið miklum truflunum, ef flæðir yfir vegi eða ræsi. 

„Vegir geta farið í sundur, þetta er alveg það mikið. Um og yfir 300 millimetrar uppsafnað eftir þessa tvo sólarhringana,“ segir Þorsteinn og bætir við að Veðurstofan vakti ástandið vel.

Almannavarnir funda með sérfræðingum

Aðspurður kveðst hann ekki þora að tjá sig um hvort ógn steðji að byggð, en staðfestir að sérfræðingar Veðurstofunnar fundi nú með almannavörnum um ástandið. 

Þá telur Þorsteinn að draga fari úr úrkomu eftir miðnætti á morgun og að þá taki að kólna. Vindurinn verði norðlægari og að það taki að hvítna aðeins í fjalltoppum. 

Appelsínugul viðvörun tekur gildi á Austfjörðum á morgun. Gul viðvörun …
Appelsínugul viðvörun tekur gildi á Austfjörðum á morgun. Gul viðvörun er þegar í gildi á Austurlandi. Kort/Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert