Fjöldi breytinga í fastanefndum Alþingis í vetur

Hildur lagði fram tillögu að nefndaskipan í gær sem var …
Hildur lagði fram tillögu að nefndaskipan í gær sem var samþykkt einróma á þingflokksfundi sjálfstæðismanna. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég lagði fram tillögu þar sem áhugasvið hvers og eins myndar sérlega sterka heild. Mér finnst þessi uppstilling sýna fram á mjög gott lið hjá okkur, þannig að ég hlakka eindregið til vetrarins.“

Þetta segir Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, um breytingar á nefndaskipan Sjálfstæðisflokksins í fastanefndum Alþingis fyrir komandi þingvetur. Hildur lagði fram tillögu að nefndaskipan í gær sem var samþykkt einróma á þingflokksfundi sjálfstæðismanna.

Guðrún Hafsteinsdóttir var nýlega skipuð dómsmálaráðherra í stað Jóns Gunnarssonar og mun hún því stíga úr þeim nefndum sem hún var í á síðasta þingvetri enda ekki grundvöllur fyrir því að ráðherrar sitji í fastanefndum Alþingis. Bryndís Haraldsdóttir kemur í hennar stað í velferðarnefnd og mun hún sitja þar með Ásmundi Friðrikssyni, öðrum varaformanni, og Óla Birni Kárasyni. Teitur Björn Einarsson mun þá taka við formennsku í efnahags- og viðskiptanefnd af Guðrúnu.

Jón í utanríkismálanefnd

Eins og kunnugt er vék Jón Gunnarsson úr embætti dómsmálaráðherra í sumar en hann mun taka sæti í utanríkismálanefnd í vetur og kemur í stað Teits Björns sem sat þar síðasta þingvetur. Diljá Mist Einarsdóttir tekur við formennsku nefndarinnar af Bjarna Jónssyni, þingmanni Vinstri grænna, en Birgir Þórarinsson situr áfram í nefndinni. „Bæði Teitur og Diljá verða frábær í þessum nefndum enda hafa þau mikinn áhuga á þessum málaflokkum sem þau fá í fangið,“ segir Hildur.

Spurð hvort það hafi komið til greina að Jón yrði formaður í utanríkismálanefnd segir Hildur: „Hann óskaði einfaldlega ekki eftir því. Það er heiðurspóstur að fá að vera bara í einni nefnd. Það er sjaldgæft að fyrrverandi ráðherra setjist í þá málefnanefnd sem tekur á málum þess ráðherrastóls en ég efast ekki um að þau mál munu njóta þekkingar Jóns á þinginu með einum eða öðrum hætti.“

Þrjár nefndir óbreyttar

Ásmundur Friðriksson mun þá koma í staðinn fyrir Diljá Mist sem fjórði varaforseti í forsætisnefnd en Hildur segir að það muni fara Ásmundi sérlega vel að vera í forsetastól. Aðrar breytingar sem voru samþykktar á nefndarsetu þingmanna Sjálfstæðisflokksins voru að Teitur Björn mun taka sæti í fjárlaganefnd í stað Bryndísar Haraldsdóttur. Þess má geta að Einar Oddur Kristjánsson, faðir Teits og fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sat í fjárlaganefnd frá árinu 1999 til 2007 og var jafnframt varaformaður. Einar Oddur lést árið 2007, 64 ára að aldri.

Í atvinnuveganefnd eru gerðar þær breytingar að Ásmundur Friðriksson og Óli Björn koma í stað Hildar og Teits Björns en Berglind Ósk Guðmundsdóttir situr þar áfram sem annar varaformaður.

Þá stendur nefndarseta þingmanna Sjálfstæðisflokksins í allsherjar- og menntamálanefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og umhverfis- og samgöngunefnd óbreytt á komandi þingvetri. Mun því Bryndís sitja áfram sem formaður allsherjar- og menntamálanefndar en Vilhjálmur Árnason verður annar varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar eftir að hafa verið formaður síðustu tvö ár. Formennska nefndarinnar færist nú til Vinstri grænna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert