Óttast að andleg veikindi hafi ágerst

Ekkert hefur spurst til Magnúsar Kristins Magnússonar síðan 10. september.
Ekkert hefur spurst til Magnúsar Kristins Magnússonar síðan 10. september. Ljósmynd/Facebook

„Ef hann missir svo af flugi heim eða eitthvað þá hefur hann engar eðlilegar forsendur til þess að bregðast eðlilega eða rétt við,“ segir Rannveig Karlsdóttir, systir Magnúsar Kristins Magnússonar, Íslend­ings sem leitað er í Dóm­in­íska lýðveld­inu.

Hún segir enn ekkert hafa spurst til Magnúsar síðan 10. september en þá ræddi hann bæði við bróður sinn og föður. Segja þeir báðir að Magnús hafi hljómað vel og sagst vera á leiðinni heim, en að sögn fjölskyldunnar tók Magnús skyndiákvörðun um að fara til Spánar og þaðan til Dóminíska lýðveldisins. 

Talið er að Magnús hafi tekið leigubíl á flugvöllinn en ekki farið um borð í flugvélina. Þó er talið að hann hafi skilið farangur sinn eftir á flugvellinum. Rannveig segir Magnús áður hafa átt í andlegum erfiðleikum en hafi haft tök á veikindunum síðastliðin ár. 

Hegðun hans breyst mikið í sumar

„En við höfum haft svolitlar áhyggjur af því að eitthvað sé í gangi upp á síðkastið. Þessi hegðun virðist benda til þess. Þessi hvatvísa hegðun að skella sér út [til Spánar] og svo til Dóminíska lýðveldisins sem er bara alveg út úr kú.“

Hún segir hegðun Magnúsar hafa breyst mikið í sumar og að hann hafi fjarlægst fjölskylduna talsvert, sem bendi til þess að veikindin hafi ágerst. Hún segir fjölskylduna í fyrstu ekki hafa viljað ræða andleg veikindi hans í fjölmiðlum, Magnúsar vegna, en hafi fundið sig knúin til að upplýsa um það.

Þau telji hann mögulega hafa lent í uppnámi á flugvellinum og jafnvel misst af fluginu til Íslands, sem hafi sett hann út af strikinu. Fjölskyldan hafa heyrt af því að Magnús hafi sótt spilavíti úti og ekki ólíklegt að áfengi hafi verið haft þar um hönd. Því sé enn líklegra að Magnús hafi ekki verið í stöðu til þess að takast á við vandræði á flugvellinum. 

Erfitt að vita hverju má treysta

Rannveig segir ýmislegt hafa geta gerst og að erfitt sé að vita ekkert. Hún vonist frekar til þess að hann hafi vafrað í burtu frekar en að hafa lent upp á kant við yfirvöld eða íbúa. Hún segir mikið af þeim upplýsingum sem fjölskyldan hafi í höndum ekki fengnar í gegn um opinberar leiðir og því sé erfitt að vita hverju megi treysta.

Lögreglan á Íslandi aflar nú gagna úr síma Magnúsar og hafa sent beiðni til lögreglunnar í Dóminíska lýðveldinu og segir Rannveig einnig að þrýst sé á ræðismann á svæðinu til að beita sér. 

Leita að aðila til að rannsaka málið

Lýst er eftir Magnúsi í gegn um Interpol og fjölskyldan leitar nú allra ráða til að afla sér aðstoð við leitina að sögn Rannveigar.

Hún segir fólk hér á landi frá Dóminíska Lýðveldinu hafa rétt út hjálparhönd við leitina og ráðlagt fjölskyldunni að fara ekki út sjálf nema með einhverjum sem þekki tungumálið og samfélagið.  

„Okkur er bent á að fara varlega, en það væri gott ef við finnum einhvern aðila sem við treystum til þess að rannsaka málið,“ segir Rannveig. 

Ekki sofið mikið né borðað 

Blaðamaður hefur orð á því hve yfirveguð Rannveig hljómi miðað við aðstæður og spyr hvernig líðan sé hjá fjölskyldunni á þessum erfiðu tímum.

„Ég er mjög góð að leika það hlutverk en ég get ekki sagt að ég hafi sofið mikið eða borðað mikið. Við erum auðvitað hrædd,“ svarar Rannveig

Hún kveðst sveiflast á milli þess að óska þess að Magnús hafi verið tekinn inn á spítala eða fangelsi og að vona að hann sé bara á einhverju vafri og hafi mögulega rambað á góðvilja fólk. 

„Fólk sem þekkir til þarna segir að ef hann sé ekki á einhverjum vitlausum stað, heldur bara á svæðum sem eru nokkuð normal, þá geti alveg eins verið að eitthvað fólk hafi bara tekið hann upp á sína arma og hann væri þar.“

Magnús Krist­inn er fædd­ur árið 1987, um það bil 185 sentí­metr­ar á hæð, grann- og íþrótta­manns­lega vax­inn. Hann er með grá­blá augu, dökk­hærður, mjög snögg­klippt­ur og með dökka skeg­grót.

Hafi fólk upp­lýsingar um ferðir Magnúsar er þeim bent á að hafa sam­band við annað hvort lög­regluna á höfuð­borgar­svæðinu í síma 444-1000 eða við systur hans, Rann­veigu Karls­dóttur, í síma 660-4313 eða í gegnum Face­book-síðu lögreglunnar eða Rannveigar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert