Skoða hvort rýming sé nauðsynleg

Hætta er á auknu af­rennsli og vatna­vöxt­um í ám og …
Hætta er á auknu af­rennsli og vatna­vöxt­um í ám og lækj­um sem og lík­ur á flóðum og skriðuföll­um, sem geta raskað sam­göng­um og stíflað ræsi. Ljósmynd/Colourbox

„Veðurstofan sem náttúrulega lykilaðili í þessu öllu, hefur öll sín augu á málinu,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna ríkislögreglustjóra, en óvissustig almannavarna var lýst yfir vegna mikilla rigninga á Austfjörðum.

Hættustig almannavarna tekur við eftir klukkan 18:00 í kvöld.  

Aðspurð segir Hjördís ekki liggja fyrir hvort rýma eigi byggð á Austfjörðum. Það sé þó til skoðunar og verði ákvörðun tekin í takt við þróun veðurs.

Ekki þægileg staða að vera í

Í samtali við mbl.is segir Hjördís lögreglu hvetja fólk til að hafa aðgát og gæta að niðurföllum og öðru sem geti stíflast. Einnig biðlar hún til fólks að fylgjast vel með fréttum. 

„Sem maður veit að fólk gerir, þetta er að sjálfsögðu ekki þægileg staða að vera í,“ bætir hún við.

Almannavarnir vinna náið með sérfræðingum Veðurstofu Íslands en miklu úrhellisveðri er spáð upp úr miðnætti í kvöld og fram á annað kvöld, en þegar hefur rignt talsvert í tvo daga.

Líkur á vatnstjóni

Hætta er á auknu af­rennsli og vatna­vöxt­um í ám og lækj­um sem og lík­ur á flóðum og skriðuföll­um, sem geta raskað sam­göng­um og stíflað ræsi. 

Hjördís segir líkurnar á vatnstjóni talsverðar og því sé mikilvægt að fólk hafi varann á varðandi niðurföll og annað slíkt. „Líkurnar á vatnstjóni eru svipaðar eins og þegar það er mikill vindur og trampólín fýkur.

Veðurvefur mbl.is

Hættustig tekur gildi á Austfjörðum eftir klukkan 18:00 í kvöld …
Hættustig tekur gildi á Austfjörðum eftir klukkan 18:00 í kvöld vegna mikils úrhellis. Kort/Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert