„Hæstvirtur ráðherra segir hér að við ætlum ekki að hafa fólk hér á götunni. Það er fólk hér á götunni,“ sagði Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, á Alþingi í dag.
Arndís benti á í ræðustól að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefði áður sagt að flóttamenn myndu ekki lenda á götunni þegar þjónusta væri tekin af þeim eftir brottvísun, þar sem 15. grein félagslaga feli sveitarfélögum það verkefni að grípa viðkomandi aðila.
„Það var ekki fyrr en í byrjun ágúst, þegar lögregla fór bókstaflega að bera fólk út á götu, sem það rann upp fyrir hæstvirtum ráðherra að sveitarfélögin myndu ekki grípa fólkið. Það kom engum á óvart nema hæstvirtum ráðherra,“ segir Arndís.
„Enginn aðili í kerfinu hjálpaði þessu fólki. Það voru sjálfboðaliðar á vegum félagasamtaka og hjálparsamtaka sem greip fólkið og hafa eftir fremsta megni reynt að halda því fjarri hraungjótum og yfir höfuð lifandi, þar til ráðherra hugnast að finna lausn á þeirri stöðu sem hann tók þátt í að skapa.“
Þá spurði hún ráðherra meðal annars hvað hann hugðist gera í þeirri stöðu „án þess að setja málið í nefnd“.
Guðmundur segir að vinna á útfærslu á þeirri lausn sem Arndís spyr um standi enn yfir „og ég vonast til þess að það sjáist til enda hennar sem allra fyrst“.
Hann benti á að í augnablikinu bæri sveitarfélögum samkvæmt lögum „að grípa fólk þegar 30 daga þjónustu lyki hjá ríkislögreglustjóra“.
„Ef einstaklingur bankar upp á þá ber sveitarfélaginu að taka málið fyrir og afgreiða það. Það er svo spurning með hvaða hætti sveitarfélagið afgreiðir það,“ sagði Guðmundur Ingi og bætti við að hann vissi ekki til þess að nokkur einstaklingur hafi haft samband við félagsþjónustu sveitarfélaganna.
„Ég hef líka sagt það að við ætlum ekki að hafa fólk hér á götunni,“ bætir hann við.
„Hæstvirtur ráðherra segir hér að við ætlum ekki að hafa fólk hér á götunni. Það er fólk hér á götunni,“ sagði Arndís. „Einhverjir tugir einstaklinga.“
„Ætlar hæstvirtur ráðherra einfaldlega að firra sig ábyrgð og bíða eftir því að sveitarfélögin taki við þessu?“
Arndís hafði einnig fullyrt að samkvæmt sínum heimildum hafi ráðherra aldrei haft samband að eigin frumkvæði við þau hjálparsamtök, né heldur hafi hann svarað tölvupóstum frá þeim.
Guðmundur benti þá á að hann hafi setið fund með fjölda hjálparsamtaka og að fyrir utan eitt símtal sem hann hafi ekki náð að svara, væri honum ekki kunnugt um það að hjálparsamtök hefðu reynt að hafa samband við sig.
„Það nægir ekki að mæta á einhvern opinn fund,“ sagði Arndís.