Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Norðausturkjördæmi, segir að það þurfi að koma eitthvað frá innviðaráðuneytinu í þessari viku varðandi framtíð innanlandsflugs um Húsavík.
„Ef það á eitthvað að gerast í þessu máli þá þyrfti það nú að fara að koma fram því tíminn líður og það eru fáir dagar til mánaðamóta. Við vitum nokkurn veginn hvað má gera og þekkjum leikreglurnar í þessu máli varðandi mögulega styrki og annað.“
Byggðarráð Norðurþings hefur lagt fram tillögu sem fæli í sér 15 milljóna króna stuðning ríkisins á mánuði í átta mánuði til að brúa bilið þar til hægt verði að halda fluginu áfram án utanaðkomandi stuðnings. Samgöngur á Norðausturlandi eru nú til skoðunar í innviðaráðuneytinu.
„Kannski eru einhver samkeppnissjónarmið í þessu en flugið á Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði er ekki styrkt þó það sé á flestum öðrum stöðum.“
Njáll segir flugfélagið Erni örugglega hafa verið að fá styrki vegna flugs um Höfn sem sé þannig lagað eins og eyja, landfræðilega töluvert langt frá öðrum stöðum.
„Þetta eru 15 milljónir á mánuði í átta mánuði eða 120 milljónir til 1. júní. Það þarf að koma fram hvað má gera og hvað er mögulegt og svo hver vilji ráðuneytisins og pólitíkurinnar að takast á við málið.“