Vísbendingar um einelti og ofbeldi í Sinfóníunni

Ríkisendurskoðun hefur framkvæmt stjórnsýsluendurskoðun á Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Ríkisendurskoðun hefur framkvæmt stjórnsýsluendurskoðun á Sinfóníuhljómsveit Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisendurskoðun segir að vísbendingar séu um aukið álag, einelti og ofbeldi innan Sinfóníuhljómsveitar Íslands (SÍ). Auk þess þurfi að endurmeta stefnu og rekstrarumhverfi sveitarinnar til framtíðar en uppsafnað tap SÍ nemur 55 milljónum króna.

Í janúar 2023 óskaði framkvæmdastjóri og stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands (SÍ) eftir því að Ríkisendurskoðun myndi framkvæma stjórnsýsluendurskoðun á stofnuninni.

Í skýrslunni, sem var birt í dag, koma m.a. fram tölur sem sýna að gjöld Sinfóníunnar í fyrra hafi verið 100 milljónum hærri en tekjur þess árs. Þar af er launakostnaður um tveir þriðju allra útgjalda og tveir þriðju tekna koma úr ríkissjóði. Uppsafnað tap SÍ seinustu fimm ára nemur 55 milljónum króna og skilgreind stöðugildi voru 102 um árslok seinasta árs. 

Rektrarniðurstaða Sinfóníuhljómsveitar Íslands á árunum 2017-2022. Mælt er í milljónum …
Rektrarniðurstaða Sinfóníuhljómsveitar Íslands á árunum 2017-2022. Mælt er í milljónum króna. Kort/Ríkisendurskoðun

Þá eru ábendingar Ríkisendurskoðunar til ráðuneytis menningar- og viðskiptaráðuneytis þrjár – að skýra þurfi stöðu Sinfóníuhljómsveitar Íslands, ráðuneyti sinni skyldum sínum við eftirlit og skýra þurfi stefnu um markmið og rekstur. SÍ er einnig bent á hið síðast nefnda, auk þess að hlúa þurfi að innri starfsemi og skýra hlutverk nefnda innan SÍ.

Kostnaður hækkar en fjárveitingar standa í stað

Skýrsla ríkisendurskoðunar greinir frá því að rekstur SÍ hafi verið erfiður undanfarin ár einkum vegna áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru á aðsókn að tónleikum hljómsveitarinnar. Þannig hafi hlutfall sértekna af heildartekjum fallið úr um 22% í um 10% á síðustu tveimur árum.

Á sama tíma hafi rekstrarkostnaður farið hækkandi á meðan fjárveitingar standa í stað. Mikilvægt sé að auka aðsókn, fjölga tónleikagestum og setja fram skýra aðgerðaráætlun í því sambandi. Þá þurfi einnig að endurmeta stefnu og rekstrarumhverfi sveitarinnar til framtíðar.

Í ljósi hallareksturs og að starfsemi SÍ hafi ekki að fullu náð markmiðum sínum í samræmi við áætlanir sé því einnig mikilvægt að ráðuneyti efli eftirlit sitt og bregðist við í tíma. Samskipti milli aðila þurfa að vera skilvirk og markmiðasetning skýr.

Ekkert fjallað um SÍ í efnahagsreikningi Reykjavíkurborgar

Í skýrslunni kemur fram að tilefni sé til að skoða betur eignaréttarlega stöðu hljómsveitarinnar og hvort það fyrirkomulag um fjármögnun sem nú er við lýði þjóni hagsmunum hennar sem best.

Ríkissjóður og Reykjavíkurborg standa að rekstri hljómsveitarinnar. Eignarréttarleg staða hljómsveitarinnar er samt sem áður óljós þar sem hún hefur hvorki verið skilgreind sem hlutafélag né sjálfseignastofnun. Hljómsveitin er tilgreind í A-hluta í ríkisreikningi en ekkert er fjallað um hljómsveitina í efnahagsreikningi Reykjavíkurborgar.

Einnig þarf að skýra stöðu starfsmanna með tilliti til starfsmannalaga, þar sem óvissa er uppi um stöðu starfsfólks Sinfóníuhljómsveitarinnar þar sem lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins ná ekki til þeirra. Hæstiréttur hefur hins vegar úrskurðað að stofnunin sé engu að síður stjórnvald í skilningi stjórnsýslulaga.

Vinnustaðamenning veikst að undanförnu

Í niðurstöðum segir einnig að vinnustaðamenning innan Sinfóníuhljómsveitarinnar hafi veikst undanfarin ár samkvæmt upplýsingum úr starfsmannakönnunum.

„Vinnustaðakannanir hafa enn fremur sýnt fram á aukna óánægju með starfsaðstæður og laun og vísbendingar eru um aukið álag, einelti og ofbeldi sem vinna þarf bug á,“ segir í skýrslunni. Þá hafi stjórn og framkvæmdastjórn brugðist við með því að endurskoða feril um viðbrögð við einelti og ofbeldi „og halda þarf áfram að fylgja því eftir,“ segir í skýrslunni.

Þá þurfi að auka upplýsingagjöf og skýra ferla um aðkomu hljómsveitar og skrifstofuteymis að starfseminni. Aukið samtal og samstarf eigi að geta haft jákvæð áhrif á upplifun einstakra starfsmanna Sinfóníuhljómsveitarinnar af vinnustaðnum.

Að sögn framkvæmdastjóra sé nú unnið að því að skýra betur hlutverk hvers og eins aðila og nefndar fyrir sig, hver ábyrgð þeirra sé og hvernig sé best að haga samskiptum en Ríkisendurskoðun hvetur stjórnendur til að leggja frekari áherslu á slíka vinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert