Héraðsdómur Reykjaness hefur sakfellt rúmlega fertugan karlmann fyrir sifjaspell, nauðgun og stórfellt brot í nánu sambandi gagnvart 15 ára dóttur sinni sinni. Var maðurinn dæmdur í átta ára fangelsi.
Hann var enn fremur sakfelldur fyrir önnur kynferðisbrot gagnvart stúlkunni , sem og fyrir vörslur á gríðarlegu magni af barnaníðsefni. Dómurinn féll í dag.
Hann var jafnframt dæmdur til að greiða stúlkunni 6.000.000 króna miskabætur.
Héraðssaksóknari höfðaði málið á hendur manninum með ákæru 12. júlí fyrir kynferðisbrot, stórfellt brot í nánu sambandi og vopnalagabrot á árunum 2022 og 2023.
Var hann ákærður fyrir nauðgun, sifjaspell og stórfellt brot í nánu sambandi gegn barni sínu þegar hún var 15 ára gömul. Hún er sextán ára í dag. Segir að hann hafi á tímabilinu 25. júlí 2022 til 13. janúar 2023 með ólögmætri nauðung og án samþykkis haft samræði og önnur kynferðismök við barnið og áreitt það kynferðislega. Þetta hafi gerst margsinnis.
Þá var hann ákærður fyrir að framleiða myndir og myndskeið af barninu sem hann tók á símann sinn. Samtals 27 myndir og níu myndskeið.
Þá var hann ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa um nokkurt skeið haft í vörslum símum hátt í 38.000 ljósmyndir og 634 kvikmyndir sem sýna börn á kynferðislegan hátt.
Enn fremur var hann ákærður fyrir vopnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum handjárn.
Fram kemur í dómi héraðsdóms að maðurinn, sem hefur ekki áður hlotið refsingu sem hafi þýðingu við úrlausn málsins, hafi játað skýlaust þá háttsemi sem honum var gefin að sök.
Dómstóllinn segir að brot mannsins hafi verið mjög alvarleg. Þau hafi beinst gegn 15 ára barni hans og stóðu yfir í ríflega fimm mánuði. Hann hafði á þessu tímabili margsinnis samræði við barnið. Ekki bæti úr skák að hann hafi „svalað afbrigðilegum fýsnum sínum enn frekar með því að taka myndir og myndskeið af hinni svívirðilegu framkomu gagnvart brotaþola“.
Dómurinn segir að umræddar myndir og myndskeið séu sum hver sérlega gróf og ógeðfelld og sýni í öllum tilvikum stúlkuna sem meginmyndefni. „Er þannig ekkert fram komið sem styður þann framburð ákærða að hann og brotaþoli hafi skipst á að taka kynferðislegar myndir hvor af öðrum. Verður þvert á móti lögð til grundvallar sú stöðuga og trúverðuga frásögn brotaþola að ákærði hafi ávallt verið myndasmiður.“
Við ákvörðun miskabóta var litið til þess að brot mannsins hafi verið endurtekin, svívirðileg og mjög gróf. Þau hafi staðið yfir í langan tíma og voru til þess fallin að valda stúlkunni verulegum andlegum þjáningum sem ekki sér fyrir endann á.
Hann hafi hagnýtt sér afar viðkvæma stöðu stúlkunnar, misnotað sér það traustsamband sem ríkja eigi milli foreldris og barns og taldi stúlkuna þess í stað trú um að eðlilegt væri að faðir og barn stæðu í við varandi kynferðissambandi.
„Með greindu framferði hefur ákærði orðið þess valdandi að brotaþoli stendur eftir föðurlaus. Þótt ekki liggi fyrir ítarleg gögn um andlega líðan brotaþola velkist dómurinn ekki í vafa um að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegri tilfinningaröskun og óbætanlegu sálartjóni.“