Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segist vera bjartsýnn á að framkvæmdir við Sundabraut geti hafist árið 2026.
Um helgina var greint frá því að borgarráð Reykjavíkur hefði samþykkt verklýsingu skipulagsgerðar og umhverfismat vegna Sundabrautar. Sagði Guðmundur Valur Guðmundsson, framvkæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar, við Rúv að þetta væri mikilvægur áfangi í undirbúningi framkvæmdarinnar.
„Við erum bara að reyna að ljúka við umhverfismatið og undirbúa þar að leiðandi þær skipulagsbreytingar sem borgin og svæðisskipulag SSH þarf að takast á við. Það er mjög mikilvægt til þess að við getum staðið við það að hefja útboðið á árinu 2025 og hefja framkvæmdir árið 2026,“ segir Sigurður Ingi við mbl.is.
„Það yrði bylting fyrir alla umferð á höfuðborgarsvæðinu að fá Sundabrautina. Það myndi létta gríðarlega á umferð og spara 150 þúsund kílómetra á dag,“ bætir Sigurður Ingi við.