Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir rétt einstaklingsins til þess að finna eigin hamingju vera á meðal hornsteina hugmyndafræði flokksins.
Þetta kom fram í ræðu Ragnhildar á borgarstjórnarfundi nú síðdegis.
Í ræðunni fjallaði Ragnhildur um afstöðu flokksins gagnvart þeirri umræðu sem vaknað hefur í kringum hinseginfræðslu og kynfræðslu barna. Hún sagði fræðslu og upplýsingu vera nauðsynlegt vopn gegn upplýsingaóreiðu og ofbeldi sem börn í dag geti auðveldlega komist í tæri við á netinu.
„Krafan um frelsi einstaklingsins og réttur hvers og eins okkar til að finna eigin hamingju eru hornsteinar hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins,“ sagði Ragnhildur.
„Sú krafa er ófrávíkjanleg svo lengi sem ekki er verið að valda skaða eða skerða frelsi annarra. Ekki bara á hvert og eitt okkar rétt á því að elska þann sem þeim sýnist heldur líka að ákveða í hvaða kyni viðkomandi skilgreini sig eða hvort viðkomandi skilgreini sig í einhverju kyni yfirhöfuð.“
Ragnhildur vék einnig máli sínu að kynfræðslu barna, sem hún kvað mikilvæga til þess að stemma stigu við að hugmyndir barna um kynlíf mótuðust af klámi af internetinu sem sé uppfullt af ósamþykktu valdaójafnvægi, skökkum samskiptum og óheilbrigðum tengslum.
„Ef barn gúglar kynlíf poppar yfirleitt upp Pornhub sem er sorakista ofbeldis, mansals, nauðgana og hefndarkláms. Það er hið eiginlega Youtube klámsins, sem setur það fremst sem fær flest klikk og það er yfirleitt svona sjokk-klám," sagði Ragnhildur.
Kvaðst hún þekkja dæmi þess að barn hefði þurft áfallahjálp í kjölfar þess að hafa séð afbrigðilegt klám á internetinu.
„Ef að klám á að vera eina kynfræðsla barnanna munu þau ekki læra neitt um mörk, samþykki eða nánd. Ég þekki dæmi þess sjálf, þar sem að barn þurfti áfallahjálp vegna þess að eldri nemendur sem voru líka börn voru að sýna henni á skólatíma myndband sem þau fundu á síma eins drengsins, af mjög ofbeldisfullu klámi sem var sett fram undir formerkjum BDSM,“ sagði Ragnhildur.
Loks sagði Ragnhildur fræðslu vera mikilvæga til þess að vopna börn upplýsingum og til að sporna gegn hatri í garð hinseginsamfélagsins.
„Eina vopnið sem við höfum í höndunum til þess að snúa þessari þróun við og brýna börnin okkar – aftur, ein af elstu grundvallarkennisetningum okkar er þetta að við eigum að valdefla börn með menntun og þá er það ekki síst líka það að koma með upplýsingar og þekkingu, sem vegur upp á móti þessu rugli sem er alltaf að birtast þeim.“