„Við sjáum það síðustu árin þegar upp hafa komið alvarleg kynferðisbrot, sem eru gróf eða ítrekuð að dómar eru að þyngjast. Almennt hafa refsingar í kynferðisbrotunum þyngst en það gerist hægt og bítandi en ekki í stökkum. En þróunin hefur verið svona undanfarin áratug,“ segir Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari.
Segir hún þetta í kjölfarið af átta ára dómi sem féll í Héraðsdómi Reykjaness yfir manni sem sakfelldur var fyrir sifjaspell, nauðgun og brot í nánu sambandi gegn 15 ára dóttur sinni yfir fimm mánaða tímabil. Eins hafi hann haft undir höndum umtalsvert magn mynda og myndbanda sem sýndu barnaníð.
Maðurinn játaði á sig sök og segir Kolbrún það alla jafna leiða til refsilækkunar.
Þó þetta sé með þyngri dómum sem fallið hafa í kynferðisbrotamálum eru fordæmi fyrir enn þyngri dómum í dómskerfinu. Eins var maður dæmdur í samtals níu ára fangelsi árið 2019 og 2020. Í síðara tilvikun var hann ákærður fyrir 50 kynferðisbrot gegn pilti á þriggja ára tímabili en þau hófust þegar pilturinn var 14 ára og lauk þeim þegar hann var 17 ára. Þá var manninum einnig gefið að sök að hafa sent kynferðislegar myndir af piltinum til óþekktra aðila á samfélagsmiðlum.
Þá féll dómur sjö ára dómur í Landsrétti árið 2023 yfir manni sem braut gegn fimm grunnskólastúlkum. Maðurinn hafði átt í samskiptum við stúlkurnar í gegnum Snapchat samskiptaforritið, þar sem hann fékk þær m.a. til að senda sér kynferðisleg myndskeið auk þess sem hann sendi þeim einnig slík myndskeið. Þá braut hann jafnframt gegn tveimur stúlknanna þegar hann hitti þær.
Hæstiréttur hefur samþykkt að taka málið til umfjöllunar.
Sem dæmi um aðra þunga dóma fyrir kynferðisbrot gegn börnum má nefna mál sem kom upp í Vestmannaeyjum en í því máli var maður dæmdur í átta ára fangelsi árið 2012 m.a. fyrir að brjóta gróflega gegn tveimur barnungum stjúpdætrum sínum og taka brot gegn annarri þeirra upp á myndband.
Árið 2014 dæmdi Hæstiréttur mann í tíu ára fangelsi fyrir gróf kynferðisbrot og frelsissviptingu með því að hafa veist að tíu ára stúlku og ekið með hana á afvikinn stað þar sem hann braut gegn henni.
Þá var annar maður einnig dæmdur í tíu ára fangelsi af Hæstarétti árið 2015 fyrir að hafa brotið kynferðislega gegn þroskahamlaðri konu og frelsissvipt og brotið kynferðislega gegn tveimur átta ára drengjum.