Mikið vatn safnaðist saman í fjöllum í kringum Drangajökul eftir mikla úrkomu í gær og fyllti ár. Vatnavextir í Skjaldfannardal í Ísafjarðardjúpi í morgun eru afleiðing þess, að sögn veðurfræðings.
Indriði Aðalsteinsson, bóndi á Skjaldfönn í Skjaldfannardal, sagði við RÚV að dalurinn hefði verið eins og eitt stöðuvatn í morgun. Tugir hektara af túni voru þá undir vatni. Allt fé var rekið af láglendi í dalnum í gærkvöldi en ef það hefði ekki verið gert hefði getað orðið mikill fjárskaði.
Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að úrkoman á Vestfjörðum hafi náð hámarki í gær en heldur hafi dregið úr henni.
„Þetta er mjög strjálbýlt svæði þarna og þar af leiðandi eru mjög fáir mælar,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl.is um vatnavextina í Skjaldfannardal.
Þak fauk af húsi á Aðalgötu á Siglufirði í vindhviðu í gærkvöldi. Þakið fór af að stórum hluta með þeim afleiðingum að brak dreifðist um stórt svæði.
„Í norðaustanáttinni þá einhvern veginn nær vindurinn að beygja og að verða að mjög hvassri norðanátt inn Siglufjörð,“ segir Þorsteinn og bætir við að óvanalega hvasst hafi verið, mun hvassara en í fjörðunum í kring. Vindhviður náðu 35 m/s.
Ekki var veðurviðvörun í gildi á Siglufirði þegar þakið fauk en tölvuspár náðu ekki að spá fyrir um vindinn, að sögn Þorsteins.
Nú hefur verið gefin út gul viðvörun á Norðvesturlandi og á Ströndum, en það á aðallega við á Siglufirði að sögn Þorsteins. Aðeins hefur dregið úr vindinum sem er samt enn mjög mikill. Enn er appelsínugul viðvörun á Austfjörðum.
Þorsteinn tekur fram að samkvæmt spánni hvessi í öræfum seinni partinn í dag. Full ástæða sé til þess að fara þar með gát.