Fyrsta verkefni Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra, eftir mjaðmaliðaskipti sem hann gekkst undir í síðustu viku, var að klippa á borða í Faxagarði í dag í tilefni þess að fyrsta skemmtiferðaskipið var landtengt við rafmagn í Reykjavík.
Það var skemmtiferðaskip frá norsku skipaútgerðinni Hurtigruten Expeditions sem fékk fyrstu landtenginguna við rafmagn og af því tilefni var boðað til blaðamannafundar í Faxagarði.
„Þetta er mjög ánægjulegt verkefni en er um leið áminning um áskorunina sem við stöndum frammi fyrir, sem er að tengja rafmagn sem við eigum að eiga nóg af. Við höfum verið að sjá ýmsa breytingu á uppbyggingu hafna hringinn í kringum landið.
Síðast á Dalvík þá enduðum við með því að klára orkuskiptin og fyrirhugaðar eru sambærileg orkuskipti í öðrum höfnum. Faxaflóahafnir eru auðvitað langöflugasta hafnarsamfélagið og gengur á undan með góðu fordæmi og er glæsilegt framtak hjá þeim,“ sagði Sigurður Ingi í samtali viðmbl.is.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður stjórnar Faxaflóahafna, sagði af þessu tilefni að þetta væri gleðidagur enda væru bætt loftgæði í borginni eitt mikilvægasta verkefni samfélagsins til að draga úr mengun.
„Að þessu verkefni standa margir og þetta er búið að vera í undirbúningi lengi. Landtengingar hafna er risaverkefni og það er ekki eitthvað sem við gerum ekki ein og gerist alls ekki að sjálfu sér. Þetta gerist með langtíma hugsun.
Við höfum lagt mikla áherslu að þetta er partur af okkar loftlagsmálum og okkar loftlagsmarkmiðum og við erum alveg með skýra stefnu um það hjá Faxaflóahöfnum hvert við erum að fara. Leiðin er löng en hún er vörðuð litlum skrefum eins og meðal annars hér í dag,“ sagði Þórdís Lóa.
Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir að landtengingin marki ákveðin tímamót.
„Það eru umhverfismálin sem við erum að huga að í dag og núna erum við að tengja skemmtiferðaskip í fyrsta skipti við rafmagn í okkar höfnum. Þetta markar ákveðin tímamót þótt við höfum landtengt stærra skip því í desember í fyrra tókum við í notkun landtengingu stærstu fraktskipana sem Eimskip gerir út frá Sundabakka.
Evrópusambandið hefur sett skilyrði fyrir hafnir eins og okkar að við verðum tilbúin með landtengingar fyrir öll skip fyrir árið 2030 en við ætlum að reyna að gera betur en það,“ sagði Gunnar.
Hverju breytir þetta?
„Þetta breytir því að þetta skip þarf ekki að brenna neinni olíu meðan það er í höfninni og á ekki að losa neitt, hvorki loftmengandi efni né gróðurhúsaloftegundir. Aðallega er þetta loftgæðamál og þar að leiðandi á ekki að berast nein mengun inn í borgina. Við erum að nota græna rafmagnið okkar til að kynda skipin. Við ætlðuðum að vera búin að þessu í vor en það tókst ekki af tæknilegum ástæðum,“ sagði Gunnar við mbl.is.
„Þetta er fyrsta skrefið í landtengingu skemmtiferðaskipa. Við erum á fullu í öðrum geirum. Það er eitthvað í næsta skref sem er risastórt við Skarfabakkann. Það er tíu sinnum stærra og erum að vinna að því með Veitum. Það er kostnaðarsamt og tekur tíma. Ég er að sjá fyrir mér að það taki þrjú ár,“ sagði Gunnar ennfremur.