Hætta á skriðum ekki yfirstaðin

Úrkomuspáin klukkan 17 í dag.
Úrkomuspáin klukkan 17 í dag. Kort/Veðurstofa Íslands

Veðurstofa Íslands verður með skriðuvakt næsta sólarhringinn vegna mikilla rigninga á Austfjörðum, þar sem skriðuhætta er enn yfirvofandi þrátt fyrir að verulega eigi að draga úr úrkomu eftir miðnætti.

Hús voru rýmd á Seyðis­firði síðdeg­is í gær vegna úr­komu­spár á Aust­ur­landi. Um var að ræða hús við Strand­ar­veg og við Hafn­ar­götu, mest­megn­is at­vinnu­hús­næði.

Óvissu­stig al­manna­varna var virkjað og app­el­sínu­gul viðvör­un tók gildi á miðnætti.

Áhrif rigningarinnar geta varað lengi

Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun á Austfjörðum vegna talsverðrar eða mikillar rigningar. Viðvörunin gildir til miðnættis í kvöld en þá tekur við gul viðvörun til klukkan fjögur í fyrramálið, segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. 

„Síðan eru það áhrifin af þessari rigningu sem geta varað í langan tíma, skriðuhættan varir enn þó það hætti að rigna,“ segir Þorsteinn og bætir við að áfram geti fallið skriður í nótt. 

Skriðuhættan er þannig mest á Austfjörðum og Austurlandi. Veðurstofan mun fylgjast mjög náið með svæðinu næsta sólarhringinn, en aðspurður segir Þorsteinn skriðuhættuna meiri í kvöld heldur en í gær.  

Næstu daga á síðan að kólna á svæðinu og frysta til fjalla, sem Þorsteinn segir til bóta, þó það geti orðið varasamt ef það þiðnar aftur verulega. 

Gul viðvörun á Norðurlandi vestra

Mikið hvassviðri hefur verið á Norðurlandi vestra síðastliðinn sólarhring og fauk þak af húsi á Aðalgötu á Siglufirði í vindhviðu í gærkvöldi. Búist er við að hvassviðrið standi fram á kvöld og því hefur verið gefin út gul viðvörun sem stendur fram að miðnætti, þegar draga á verulega úr vindhraða.  

Eins og staðan er núna eru 30 hnúta vindhviður á Siglufirði, að sögn Þorsteins, 16 á sekúndu meðalvindhraði og vindhviður upp í 30 hnúta. 

Kólnar næstu daga 

Næstu daga er útlit fyrir norðanátt, kólnandi veður og mun minni úrkomu. Skúrir eða él á Norður- og Austurlandi, en annars bjart og fremur svalt í veðri og áfram norðlægar áttir fram yfir helgi.

Þorsteinn segir þó hugsanlegt að norðanáttinni sloti aðeins á laugardag, á haustjafndægrum, þá hlýnar aðeins í bili en síðan verður fremur svalt og frystir víða að næturlagi eftir það.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert