Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í 18 mánaða fangelsi fyrir nauðgun. Hann var enn fremur dæmdur til að greiða 1,5 milljónir í miskabætur.
Fram kemur í dómi héraðsdóms sem féll 11. september, en var birtur í dag, að héraðssaksóknari hafi ákært manninn í apríl fyrir að hafa snemma að morgni 31. desember 2021 haft kynferðismök við konu án hennar samþykkis. Fram kemur að konan hafi legið sofandi í sófa í stofu íbúðar. Hann hafi notfært sér það að konan gat ekki spornað við verknaðinum sökum áhrifa áfengis og svefndrunga.
Þá kemur fram í niðurstöðu dómsins að maðurinn hafi viðurkennt að hafa stungið fingrum inn í leggöng konunnar og haft við hana munnmök. Maðurinn sagði að þetta hefði verið að frumkvæði konunnar en hún sagði að þetta hefði ekki verið með hennar samþykki.
„Ekkert er fram komið sem styður framburð ákærða um það að brotaþoli hafi átt frumkvæði að kynmökunum og að þau hafi farið fram með samþykki hennar sem jafnframt hafi verið veitt af frjálsum vilja. Framburður ákærða hvað þetta varðar þykir ótrúverðugur,“ segir í dómi héraðsdóms.
Dómurinn taldi því, þrátt fyrir neitun mannsins, að það væri hafið yfir skynsamlegan vafa og þar með sannað að hann hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru.
Bent er á að það teljist einnig vera nauðgun „að beita blekkingum eða notfæra sér villu viðkomandi um aðstæður eða að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hana samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans. Ljóst er að sofandi manneskja er hvorki fær um að veita samþykki né sporna við kynferðismökum.“
Þá kemur fram að maðurinn hafi ekki áður sætt refsingu og að hann hafi verið ungur að árum þegar hann framdi brotið.
Héraðsdómur segir að brotið hafi verið alvarlegt kynferðisbrot og með því hafi hann brotið gróflega gegn kynfrelsi konunnar og því trausti sem hún bar til hans á grundvelli vináttu þeirra.
Konan fór fram á þrjár milljónir í miskabætur. Dómstólinn þótti aftur á móti fjárhæð miskabóta hæfilega ákveðin 1,5 milljónir kr.
Maðurinn var enn fremur dæmdur til að greiða 1,4 milljónir í málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og 900 þúsund kr. þóknun skipaðs réttargæslumanns konunnar.