„Það heldur áfram að rigna, linnulaust“

„Það heldur áfram að rigna, linnulaust,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, …
„Það heldur áfram að rigna, linnulaust,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur. Skjáskot/vedur.is

Stöðug rigning er búin að vera í nótt á Austurlandi, mest á Austfjörðum. Veðurstofu Íslands hefur ekki borist tilkynningar um skriðuföll.

„Það heldur áfram að rigna, linnulaust,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur Veðurstofunnar, í samtali við mbl.is. Heldur hefur bætt í að sögn Þorsteins.

Gætu orðið skriður í dag eða kvöld

Hús voru rýmd á Seyðis­firði síðdeg­is í gær vegna úr­komu­spár á Aust­ur­landi. Um var að ræða hús við Strand­ar­veg og við Hafn­ar­götu, mest­megn­is at­vinnu­hús­næði. Óvissu­stig al­manna­varna var virkjað og app­el­sínu­gul viðvör­un tók gildi á miðnætti.

Veðurstofu hefur ekki borist tilkynning um neinar skriður vegna rigningarinnar en ekki var við því að búast fyrr en í dag eða í kvöld, að sögn Þorsteins.

„Þetta tekur smá tíma fyrir vatnið að metta jarðveginn. Sérfræðingarnir okkar eru að fylgjast mjög vel með í dag. Ef það gerist eitthvað, þá er það í dag eða í kvöld.“

Engar viðvaranir fyrir norðan

Þorsteinn segir að í raun sé rok en ekki óveður á Siglufirði, þrátt fyrir að þak hafi fokið af húsi í bænum í nótt.

„Þegar það er viss átt á Siglufirði þá nær strengurinn einhvern veginn að magnast inn fjörðinn. Það er ekkert óveður þannig, við erum ekki með neinar viðvaranir á Norðurlandi,“ segir Þorsteinn.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert