Ungmennum sem ekki höfðu náð 20 ára aldri bauðst að greiða fyrir inngöngu á skemmtistaðinn B við Bankastræti um helgina.
Þetta herma heimildir mbl.is. Samkvæmt þeim voru dyraverðirnir með posa við hurð og eru dæmi um að ungmenni hafi verið rukkuð um fimm þúsund krónur gegn inngöngu. Þá bauðst þeim einnig að millifæra pening í gegnum appið Aur.
Eigandi staðarins neitar þessu í samtali við mbl.is og segir að spurt sé um skilríki þegar fólk komi inn á staðinn.
Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á sunnudaginn segir að lögreglan hafi haft afskipti af fólki undir lögaldri á skemmtistöðum í bæði Reykjavík og Kópavogi á laugardagskvöld.
Samkvæmt heimildum mbl.is var B einn af þeim skemmtistöðum og leysti lögregla upp fögnuðinn á laugardaginn. Var Sverrir Einar Eiríksson, annar eigenda staðarins, handtekinn og leiddur burt af lögreglu.
Sverrir segir að það sé fjarri því að fólk undir lögaldri geti borgað sig inn á staðinn. Hann segir að oft myndist löng röð af fólki fyrir utan skemmtistaðinn, sérstaklega á háannatímum.
„Þar fá allir þau skilaboð að þú getur farið í línu sem heitir „Skip the line“. Þá kaupir þú tvo drykki og kemst inn. Í þeirri línu er að sjálfsögðu beðið um skilríki,“ segir Sverrir í samtali við mbl.is í dag.
„Það eru allir spurðir um skilríki sama í hvaða röð þú ert. Það kemst enginn inn án þess að vera tvítugur. Það er fjarri því að það sé hægt að borga sig inn undir aldri,“ segir Sverrir.
Í yfirlýsingu sem Sverrir sendi mbl.is í morgun segir hann að ágreiningur hafi risið um vinnubrögð lögreglu við eftirlit á veitingastað í Bankastræti.
„Okkur aðstandendum staðarins fannst vanta að gætt væri hófs í vinnu lögreglu, en áður hafði þurft að leiðrétta misskilning lögreglumanns sem eftirlitið leiddi um kröfur þær sem gerðar eru til dyravarða á staðnum. Sami lögreglumaður lét færa undirritaðan niður á lögreglustöð þar sem málinu lauk og mér var sleppt,“ segir í yfirlýsingunni.
Fullyrt er þar að lögreglan haldi því fram að of margir hefðu verið inni á staðnum en að talning öryggismyndavélakerfis sýni að svo hafi ekki verið.
„Ég hef sent lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu formlega kvörtun vegna framgöngu þessa lögreglumanns. Okkur er í mun að gott samstarf sé við lögreglu og hörmum að þarna hafi orðið misbrestur á því. Við vinnum að því að koma á samtali við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu um vinnulag við eftirlit sem fullnægi þörfum lögreglu án þess að það sé um of íþyngjandi fyrir gesti og rekstur staðarins.“