„Hagvaxtarhorfur hafa versnað“

Ný yfirlýsing fjármálastöðugleikanefndar var kynnt í morgun samhliða útgáfu ritsins …
Ný yfirlýsing fjármálastöðugleikanefndar var kynnt í morgun samhliða útgáfu ritsins Fjármálastöðugleika. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika og Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hagvaxtarhorfur hafa versnað og spár benda til að það dragi úr hagvexti á seinni hluta þessa árs og því næsta.“ Þetta segir í ritinu Fjármálastöðugleika sem Seðlabanki Íslands gaf út í dag.

Í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar segir jafnframt að eftir hraðan efnahagsbata síðustu tvö ár þar sem aukin umsvif hafi leitt til aukinna tekna hjá heimilum og fyrirtækjum blasi nú við hægari efnahagsumsvif samfara versnandi fjármálaskilyrðum.

Enn er þó mikil eftirspurn eftir helstu útflutningsafurðum Íslands og skuldsetning einkageirans er lítil í sögulegu samhengi og eiginfjárstaðan góð. Þá hefur atvinnustig verið hátt og nafnlaun hækkað. Þyngri greiðslubyrði hefur því ekki birst í auknum vanskilum þó slíkt sé viðbúið að gerist fyrr eða síðar.

Verð á húsnæði enn hátt á flesta mælikvarða

Í ritinu Fjármálastöðugleika, sem var gefið út samhliða yfirlýsingunni, segir að fjármögnun á húsnæðismarkaði sé orðin erfiðari en áður með hærra vaxtastigi og þrengri lánþegaskilyrðum. Þetta sjáist meðal annars á því að framboð íbúða á sölu hafi aukist og sölutími lengst og velta dregist saman. Þó er tekið fram að verð á húsnæðismarkaðinum sé enn hátt á flesta mælikvarða, þrátt fyrir að dregið hafi úr misvægi.

Jafnframt er bent á að staða stóru viðskiptabankanna sé sterk og eiginfjárhlutföll þeirra há og arðsemi af reglulegum rekstri góð. Þá séu sem fyrr segir vanskil bæði heimila og fyrirtækja í lágmarki.

Staða bankanna góð

Nýlega hafi svo bankarnir dregið mikið úr endurfjármögnunaráhættu í erlendum gjaldmiðlum með skuldabréfaútgáfu á erlendum lánsfjármörkuðum.

Kom fram á kynningarfundi í morgun að stóru viðskiptabankarnir þrír hefðu nægjanlegt handbært fé til að mæta skuldbindingum sínum bæði út þetta ár og það næsta án þess að það kæmi niður á eiginfjárkröfum Seðlabankans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert