Kapallinn gæti farið af stað tiltölulega hratt

Gangi hugmyndirnar eftir mun Landsréttur færast í hús Hæstaréttar, Hæstiréttur …
Gangi hugmyndirnar eftir mun Landsréttur færast í hús Hæstaréttar, Hæstiréttur yfir í Þjóðmenningarhúsið og starfsemi Listasafns Íslands í Þjóðmenningarhúsinu færast í gamla Landsbankahúsið í Austurstræti. Samsett mynd

Ríkisstjórnin kannar möguleika þess að færa Hæstarétt í Þjóðmenningarhúsið og þannig koma starfsemi Landsréttar fyrir í húsnæði Hæstaréttar. 

Ef viðunandi niðurstaða fæst eftir þarfagreiningu telur Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, að tilfæringarnar gætu orðið tiltölulega hraðar. 

Bjarni sagði í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í gær, að á síðasta ríkisstjórnarfundi hefðu húsnæðismál opinberra stofnanna verið til umræðu. Rætt hefði verið um að taka til frekari skoðunar framtíðarnýtingu á nokkrum lykilbyggingum. 

Landsréttur í núverandi húsnæði Hæstaréttar

Framtíðarhúsnæði fyrir Landsrétt var meðal þess sem var til umræðu, en dómstóllinn er nú til húsa í bráðabirgðahúsnæði á Kársnesi í Kópavogi. Bjarni sagði það hafa komið til álita að Landsréttur myndi flytjast í byggingu Hæstaréttar samhliða því að Safnahúsið við Hverfisgötu, sem hét áður Þjóðmenningarhúsið, yrði kannað sem möguleiki fyrir starfsemi Hæstaréttar. 

Þá stendur jafnframt til að gera endurbætur á gamla Hæstaréttarhúsinu að sögn Bjarna. Koma þar upp fundaraðstöðu sem ríkisstjórnin gæti nýtt sér, en jafnframt sal sem hægt væri að nota í öðrum tilvikum.

Bjarni nefndi sem dæmi dómssal fyrir Landsrétt að því gefnu að Landsréttur flytjist í núverandi húsnæði Hæstaréttar. 

Bjarni sagði gamla Landsbankahúsið við Austurstræti jafnframt vera til skoðunar. Það er að segja hvort þar séu einhverjir nýtingarmöguleikar fyrir ríkið í því húsnæði, þar sem húsnæðið er til sölu. Fram kom eftir fund ríkisstjórnarinnar á föstudaginn að til skoðunar væri að flytja starfsemi Listasafns Íslands í Safnahúsinu yfir í gamla Landsbankahúsið.

Veistu eitthvað hvenær þetta á að gerast, er það innan þessa starfsárs?

„Ef viðunandi niðurstaða fæst, eftir þarfagreiningu og athugun á þessum byggingum, þá held ég að þetta geti gerst tiltölulega hratt, en ég er ekki með neina tímasetningu á því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert