Magnús beggja vegna borðs

Frá fundi borgarstjórnar. Fulltrúari í meirihlutanum hafa gagnrýnt alvarlega stöðu …
Frá fundi borgarstjórnar. Fulltrúari í meirihlutanum hafa gagnrýnt alvarlega stöðu málefna hælisleitanda í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gagnrýnt hefur verið að Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður og borgarfulltrúi Pírata, sitji beggja vegna borðs sem eigandi lögmannsstofu og borgarfulltrúi á sama tíma.

Gagnrýnt hefur verið að ekki fari vel á því að maður, sem hafi beina fjárhagslega hagsmuni af hagsmunagæslu fyrir hælisleitendur, sé um leið að beita sér hjá hinu opinbera gagnvart sama hópi, án þess að vekja nokkra athygli á tengslum sínum.

Lögmannsstofa Magnúsar, Norðdahl, Narfi & Silva, sérhæfir sig m.a. í innflytjenda- og mannréttindamálum og því ljóst að hann hefur tekjur af þeirri þjónustu sem stofan veitir þeim sem óska hér eftir hæli.

Lögmannsstofan var með 100 milljónir króna í rekstrartekjur árið 2022 og skilaði 24 milljónum króna í hagnað eftir skatt.

Borgarfulltrúar geta birt ítarlegt yfirlit yfir hagsmuni sína á vef Reykjavíkurborgar. Athygli vekur að hagsmunaskrá Magnúsar er tóm og því hvergi getið um fyrrgreinda hagsmuni sem þó væri eðlilegt að gera. „Hagsmunaskráningin á ekki að vera auð. Öllum upplýsingum var skilað til Reykjavíkurborgar eftir kosningar 2022. Ég mun kanna hverju sætir og bæta úr,“ segir hann.

Ríkið geri betur

Magnús Davíð Norðdahl var kjörinn í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir Pírata árið 2022. Þar er hann m.a. formaður mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs.

Á fundi ráðsins 25. ágúst sl. sameinuðust fulltrúar í Samfylkingu, Framsókn, Pírötum, Sósíalistaflokki Íslands og Flokki fólksins um harðorða bókun vegna umræðu um heimilisleysi hælisleitenda í Reykjavík. Staða þeirra sem upp væri komin í Reykjavík er þar hörmuð vegna þess að hluti hópsins sé heimilislaus.

Kallað er eftir því að ríkið geri betur í málaflokknum. Í ályktuninni segir m.a.: „Staðan er sú að bjargarlaust fólk er á götunni í aðdraganda íslensks vetrar en við það verður ekki unað. Brýn nauðsyn er að ríkisstjórn Íslands, sem ber ábyrgð á málaflokknum, láti af núverandi framkvæmd sem brýtur á mannréttindum hælisleitenda og er einkar gróf aðför að okkar norræna velferðarsamfélagi sem öllu jafna myndi ekki koma fram við manneskjur með þeim ómannúðlega hætti sem raun ber vitni.“

Neitar hagsmunaárekstrum

„Um er að ræða almenna yfirlýsingu vegna þeirrar hörmulegu stöðu sem upp er komin að stór hópur hælisleitenda er heimilislaus á götum höfuðborgarsvæðisins. Inntak og eðli umræddrar bókunar felur ekki í sér hagsmunaárekstra með hliðsjón af stöðu minni sem eigandi lögmannsstofu eða vegna fyrri starfa. Þetta er mál sem snertir okkur öll sem manneskjur og þátttakendur í íslensku samfélagi. Einnig ber að hafa í huga að hvorki Reykjavíkurborg né önnur sveitarfélög afgreiða hælisumsóknir.

Af fjölmiðlaumfjöllun síðustu ár er almenningi fullljóst hvar ég stend varðandi málefni hælisleitenda. Sú vegferð ríkisstjórnar Íslands að vísa bjargarlausu fólki á götuna er að mínum dómi einkar gróf aðför að okkar norræna velferðarsamfélagi sem öllu jafna myndi ekki koma fram við manneskjur með þeim ómannúðlega hætti sem raun ber vitni. Tel ég að flest okkar geti tekið undir það,“ segir borgarfulltrúinn.

Magnús kom m.a. fram á vettvangi RÚV sem talsmaður brottvísaðs hælisleitanda í ágúst, áður en ályktun flokkanna var borin upp. Hann hefur líka komið fram sem álitsgjafi í innflytjendamálum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert