Nær öll sveitarfélög rekin með tapi

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir fjárhagsstöðu sveitarfélaga …
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir fjárhagsstöðu sveitarfélaga vera það helsta sem brenni á sveitarstjórnarfólki. mbl.is/Margrét Þóra

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að fjárhagsstaða flestra sveitarfélaga í landinu sé ekki góð og miklar áskoranir blasi við þeim.

Sveitarstjórnarfólk víðs vegar um landið mun hittast á árlegri fjármálastefnu sveitarfélaganna á Hilton-hótelinu á morgun en megintilgangur ráðstefnunnar er að gefa sem best yfirlit yfir efnahagsmálin og forsendur fyrir næsta ár sem sveitarstjórnir þurfa að hafa við gerð fjárhagsáætlunar.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, eru meðal þeirra sem ræða málin á ráðstefnunni sem og Heiða Björg, sem tók við formennsku hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir rúmu ári síðan.

Nær öll sveitafélögin rekin með tapi

„Þetta er stærsti viðburðurinn sem er á vettvangi sambandsins ár hvert þar sem um 500 manns koma saman og bera saman bækur sínar. Það sem brennur helst á okkur núna er fjárhagsleg staða sveitafélaganna. Það má segja að nær öll sveitafélög landsins séu rekin með tapi. Við verðum einhvern veginn að leiðrétta þetta þannig að sveitarfélögin geti veitt íbúum þá þjónustu sem þeir eiga skilið og krefjast,” segir Heiða.

Heiða nefnir einnig málefni hælisleitenda sem hafa misst hafi rétt á þjónustu vegna höfnunar á umsókn um alþjóðlega vernd, húsnæðismálin séu stórt mál sem og úrgangsmálin og orkumálin.

„Okkur finnst ríkið oft svo fljótt að vísa á okkur og þar get ég nefnd hælisleitendur. Húsnæðismálin eru mál málanna að mörgu leyti og þá nefni ég úrgangsmálin þar sem úrvinnslugjaldið sem talað var um að ætti að greiða rennur ekki til sveitarfélaganna. Þar með sitja þau eftir með meiri kostnað heldur en rætt var um.

Svo er auðvitað málaflokkur fatlaðra. Við fengum ákveðnar fréttir frá ríkisstjórninni í fyrra um ríkið myndi koma til móts við okkur. Skýrsla sem átti að vera tilbúin er ekki komin en við vonumst til að fá einhverjar fréttir fljótlega. Orkumálin verða líka til umfjöllunar. Við höfum verið að reka eftir því að fá tekjur af orkumannvirkjum og þá eru líka fram undan kjarasamningar. Við munum spyrja fjármálaráðherrann hvernig hann ætlar að hjálpa okkur með þá án þess að launin hækki upp úr öllu valdi,” segir Heiða.

Þurfum að auka tekjurnar

Spurð út í horfur næstu misserin fyrir sveitarfélögin og um möguleika á að þeim takist að rétta úr kútnum segir hún:

„Við viljum vera brött og erum að búa til samfélag út um allt land og viljum standa okkur vel. Það er auðvitað það sem við viljum ræða um og hvernig við getum gert betur. Nota stafrænar lausnir, einfalda ferla og vinna meira saman. Við þurfum að auka tekjurnar. Það er mikil krafa frá íbúum að gera betur og við viljum gera það.

Grunnþjónustan verður að vera í lagi og þar erum við að tala um þjónustu við lítil börn, gamalt fólk, uppbygginguna, samgöngurnar og fleira. Hið opinbera virkar heldur ekki ef sveitarfélögin standa sig ekki. Það ber ekki svo mikið á milli markmiðasetningar ríkis og sveitarfélaga en sá langi tími sem sveitarfélög eru rekin með tapi er farinn að setja svolítil spor í íslenskt samfélag. Það er nóg af áskorunum fram undan,” segir Heiða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert