Fréttamenn Ríkissjónvarpsins, sem vinna við gerð þáttarins Kveiks, hafa verið kærðir til lögreglu vegna drónaflugs. Það er bóndinn á bænum Holti undir Eyjafjöllum sem kærir. Hann sendi jafnframt kvörtun til Samgöngustofu og Persónuverndar og kveðst hafa fengið þau viðbrögð frá Samgöngustofu að um lögbrot væri að ræða og hann jafnframt hvattur til þess að kæra málið til lögreglu, hvað hann og gerði.
Aðdragandi málsins er sá að bóndinn, Orri Guðmundsson, var ásamt fleirum að vinna við blóðtöku úr merum í útihúsi á bænum og urðu þau vör við ókyrrð í hrossahópi sem var utandyra. Það þótti þeim óvenjulegt og fóru að grennslast fyrir um hvað ylli.
„Skömmu síðar kom dróni fljúgandi að hurðargatinu á útihúsinu þar sem við vorum, hann var í á að giska fjögurra metra hæð. Við fórum að kanna hverjir stjórnuðu drónanum og hittum fyrir fréttafólk Ríkissjónvarpsins sem neitaði fyrst að hafa verið að fljúga drónanum og vildi heldur ekki segja frá því á vegum hverra það væri. Skömmu síðar sat þetta fólk fyrir okkur með míkrófóna og myndavélar uppi á vegi og kynnti sig þá loksins sem fréttamenn frá Ríkissjónvarpinu. Eins og gefur að skilja fór þetta öfugt ofan í okkur öll, þar sem þeir flugu dróna að okkur með myndavélum og spurðu síðan um leyfi. Við sögðum þeim að það væri ekki í boði,“ segir Orri í samtali við Morgunblaðið.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.