„Enginn möguleiki á 30 milljarða framkvæmdum árlega“

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum öll í sama liðinu við að þjóna fólkinu í landinu,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, þegar hann hélt tölu á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem hófst á á Hilton Hótelinu í morgun.

Fjármálaráðstefnan var sett klukkan 10 en á henni sitja um 500 sveitarstjórnarmenn víðs vegar um landið.

Bjarni gantaðist með það í upphafi ræðu sinnar að hann hefði ekki viss um það hvort hann kæmist á ráðstefnuna þar sem hann hafi legið kylliflatur á heimili sínu með þursabit í baki í gærkvöld.

Bjarni sagði að fjármálaráðstefnan væri mikilvægur vettvangur til að skiptast á skoðunum og ríki og sveitarfélög væru í sama bransanum, það er að vinna fyrir fólkið í landinu.

Bjarni sagði að ríkið hafi fengið stóran skell í kórónuveirufaraldrinum en staðan sé betri en gert var ráð fyrir í miðjum faraldri. Hann sagði að efnahagsáfallið hafi verið minna fyrir sveitafélögin heldur en ríkið í faraldrinum. „Sveitarfélög eru sjálfstæð og með sjálfstæða tekjustofna og staða þeirra á að fara batnandi,“ sagði Bjarni en eins og fram kom í samtali við Heiðu Björgu Hilmisdóttur, formanns sveitafélaga, á mbl.is í gær eru flest sveitarfélög landsins rekin með tapi.

„Enginn möguleiki á að framkvæma fyrir 30 milljarða króna á hverju ári“

Bjarni ræddi aðeins um samgöngumálin á höfuðborgarsvæðinu en hann vill að skynsemin ráði för og er þeirrar skoðunar að bíða þurfi með framkvæmdir að andvirði 100 milljarða króna á höfuðborgarsvæðinu úr samgöngusáttmálanum og að betra sé að horfa til skemmri tíma í einu.

„Það er enginn möguleiki á að framkvæma fyrir 30 milljarða króna á hverju ári,“ sagði Bjarni á fjármálaráðstefnunni. Hann segir að almenningssamgöngur séu lykilatriði og menn ættu að einblína hvernig hægt sé að auka tíðnina í almenningssamgöngum.

Bjarni minntist einnig á kjaramálin og benti á að ríkið gangi oftar en ekki á undan. Hann sagði það mikilvægast sé að ná stöðugleika og koma verðbólgunni niður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka