„Koma til Íslands og fallast í faðma“

Tuttugu ára afmæli tölvuleiksins EVE Online er fagnað hér á landi um helgina á hátíðinni EVE Fanfest CCP. Hátíðin fer fram í 16. sinn en hún var fyrst haldin ári eftir útgáfu leiksins, árið 2004, og hefur síðan vaxið mikið í umfangi og fjölda þátttakenda.

Uppselt er á hátíðina en um 2000 manns frá 56 mismunandi löndum sækja hátíðina í ár. Á hátíðinni kynnir CCP ýmsar nýjungar í vöruþróun sinni og í EVE heiminum. Fjöldi blaðamanna og samstarfsaðila CCP úr tölvuleikja- nýsköpunar- og tæknigeiranum eru komnir til landsins.

Gestir á Fanfest voru í góðum gír í Grósku í …
Gestir á Fanfest voru í góðum gír í Grósku í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þjóðfundur spilara

Fyrir spilara EVE Online er Fanfest nokkurskonar þjóðfundur en dagskráin samanstendur af fyrirlestrum og pallborðsumræðum um efnahagsmál, sagnfræði og stjórnmál í EVE heiminum. Fullt af viðburðum eiga sér stað um helgina fyrir ráðstefnugestina þar sem tónlistarmaðurinn Daði Freyr kemur meðal annars fram ásamt hljómsveit.

Stjörnufræðingurinn Mark McCaughrean frá Geimvísindastofnun Evrópu er einnig mættur til landsins og fer með erindi í Laugardalshöllinni. 

Spenntur fyrir helginni

Fyrsti dagur hátíðarinnar var í dag þar sem gestir sóttu miðana sína í Grósku en þar fóru fram nokkrir fyrirlestrar og vinnustofur. Mbl.is fór á staðinn og hitti þar Eldar Ástþórsson sem er vörumerkjastjóri CCP. Hann var virkilega spenntur fyrir helginni og 20 ára afmæli tölvuleiksins.

Langar raðir voru í skráningu gesta.
Langar raðir voru í skráningu gesta. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er skemmtilegur og stór dagur þar sem við erum að hefja þessa hátíð, EVE Fanfest.“

Aðspurður hvort fólk sé að koma til landsins til þess að hitta vini sína sem þau hafi kynnst í gegnum tölvuleikinn segir hann að það sé algengt. 

„Spilarar eru að koma hingað fyrst og fremst til þess að hitta aðra spilara. Það eru mjög mörg dæmi um það að fólk eru kannski svarnir óvinir í EVE Online en koma til Íslands og fallast í faðma og hittast á barnum og bara skemmta sér. Það eru pallborðsumræður og fyrirlestrar um sagnfræði, efnahagsmál og stríð en allt í EVE heiminum“ sagði Eldar en viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka