Iðunn Andrésdóttir
Dómari í namibíska anganum af Samherjamálinu, hefur frestað réttarhöldum yfir tíu sakborningum. RÚV greindi fyrst frá.
Réttarhöldin áttu að hefjast 2. október, en hefur nú verið frestað til 29. janúar 2024 vegna „óteljandi ástæðna, bæði heilsufarstengdum og fjárhagslegum.“ Sakborningarnir munu engu að síður mæta til fyrirtöku á málinu þann 10. október samkvæmt namibíska miðlinum Informanté.
Tíu sakborningar eru bendlaðir við stærsta spillingarmál Namibíu sem felur í sér milljónir opinberra sjóða, en málið hefur verið nefnt Fishrot-málið af namibískum fjölmiðlum.
Einn þeirra ákærðu, Ricardo Gustavo, vék sér undan réttarhöldum að svo stöddu vegna aðgerðar sem hann mun gangast undir innan skamms og sagði lögfræðingur hans óljóst hvenær Gustavo yrði nógu hraustur til að sitja réttarhöld.
Aðrir sakborningar hafa hafa sótt um fjárhagsaðstoð og aðrir sótt um aðgang að frystum eignum til að greiða fyrir lögfræðikostnað.
Meðal hinna ákærðu eru Sacky Shanghala fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu og Bernard Esau fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu.
Sá síðarnefndi sendi beiðni til ríkissaksóknara um að yfirvöld myndu standa straum af lögfræðikostnaði hans, en þeirri beiðni var hafnað. Voru rök fyrrverandi sjávarútvegsráðherrans að hann hefði sinnt opinberum skyldum þegar hann var bendlaður við málið.