Söguminjar gætu glatast

Slökkviliðs- og sjúkrabílar frá öllu landinu eru til sýnis á …
Slökkviliðs- og sjúkrabílar frá öllu landinu eru til sýnis á safninu í Reykjanesbæ og er elsti bíllinn frá árinu 1931. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Við Njarðarbraut í Reykjanesbæ má finna hreint út sagt stórmerkilegt safn sem hefur að geyma sögu skipulagðra slökkvistarfa á Íslandi. Eru það slökkviliðsmennirnir Sigurður Lárus Fossberg og Ingvar Georgsson sem eru driffjaðrir safnsins og hafa þeir komist yfir ökutæki, dælur, búninga og ýmsa aðra áhugaverða muni tengda slökkvistarfi. Öllu er þessu stillt upp og hefur fólk getað notið safnsins frá árinu 2013. En nú stefnir að óbreyttu í miklar breytingar – safnið mun missa húsnæði sitt og munirnir fara þá annaðhvort aftur til eigenda sinna eða, það sem verra er, beint á haugana.

„Við höfum vissulega fengið styrki til að halda þessu gangandi en að stórum hluta hefur þetta verið greitt úr eigin vasa. Þegar við standsettum salinn á sínum tíma þá sendum við út hópkall á slökkviliðsmenn í landinu og var því fljótt svarað af um þrjátíu mönnum sem græjuðu það sem gera þurfti. Alveg frábær eining í hópnum og mikill vilji til að safnið yrði að veruleika,“ segir Sigurður Lárus og bætir við að safnið, sem nefnist Slökkviliðsminjasafn Íslands, hafi verið opnað á 100 ára afmæli slökkviliðsins í Keflavík.

Slökkviliðsmennirnir Ingvar Georgsson, Guðmundur Haraldsson og Sigurður Lárus Fossberg standa …
Slökkviliðsmennirnir Ingvar Georgsson, Guðmundur Haraldsson og Sigurður Lárus Fossberg standa við gamla vatnsdælu sem eitt sinn þjónaði Reykvíkingum. Elsti munur safnsins er frá árinu 1880. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Opnunartími safnsins hefur verið fremur óreglulegur og skýrist það af störfum þeirra Sigurðar Lárusar og Ingvars. Hefur það vanalega verið opið á sunnudögum, eftir pöntunum og í tengslum við stærri viðburði á borð við Safnahelgar og Ljósanótt. Þá heimsóttu um og yfir tvö þúsund manns safnið.

Einstakt safn á heimsvísu

„Sérstaða þessa safns er einkum sú að hér má sjá heildarmyndina yfir allt landið. Sambærileg söfn úti í heimi varðveita vanalega bara sögu einstakra borga eða héraða. Það að taka sögu slökkviliðsins á öllu landinu þekkist ekki annars staðar,“ segir Ingvar og bætir við að enn séu þeim félögum boðnir munir frá öllum svæðum landsins, seinast slökkvibílar frá Ísafirði, Sauðárkróki og Vestmannaeyjum. „Við gætum fyllt þetta hús mörgum sinnum. Okkar draumur er að hægt verði að setja upp slökkviliðs-, lögreglu-, landhelgisgæslu- og herminjasafn undir einu þaki. Þannig gæti fólk séð sögu björgunarmála á Íslandi.“

Að líkindum má hvergi finna sambærilegt safn utan landsteinanna
Að líkindum má hvergi finna sambærilegt safn utan landsteinanna Morgunblaðið/Árni Sæberg

Hluti af safninu hefur að geyma sögu Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Eru það m.a. einkennisbúningar slökkviliðsmanna á vellinum sem hægt er að skoða, hjálmar, eiturefnagallar, grímur ýmiss konar og viðurkenningar. En slökkviliðsmenn á Keflavíkurflugvelli fengu ósjaldan viðurkenningu frá varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna fyrir afburða þekkingu og þjálfun.

Merk saga Erlendar varðveitt

Þá eru þarna einnig til sýnis einhverjir öflugustu slökkvibílar sem notaðir hafa verið hér á landi, bílar sem stóðu vaktina við flugbrautir Keflavíkurflugvallar.

Sigurður Lárus segir safnið einnig varðveita vinnu Erlendar Halldórssonar hjá Brunamálaráði Íslands, en hann breytti yfir 30 jeppa- og vörubílum í slökkvibíla fyrir hinar og þessar sveitir landsins. Nokkrir þessara bíla eru til sýnis á safninu.

„Við teljum mjög mikilvægt að varðveita þessa sögu sem hér er að finna. Hún gæti brátt öll glatast.“

Þessir stóðu eitt sinn vaktina við flugbrautir Keflavíkurflugvallar
Þessir stóðu eitt sinn vaktina við flugbrautir Keflavíkurflugvallar Morgunblaðið/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert