Bjarni vill bíða með framkvæmdir að andvirði 100 milljarða

Bjarni Benediktsson mætir á fund Varðar.
Bjarni Benediktsson mætir á fund Varðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segist þeirrar skoðunar að bíða þurfi með framkvæmdir að andvirði 100 milljarða króna a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu úr samgöngusáttmálanum. Nýtt kostnaðarmat upp á 300 milljarða kr. í stað 160 milljarða kr. geri þetta að verkum.

Þá telur hann nær lagi að horfa til skemmri tíma. Til að mynda þriggja ára í senn. Öðruvísi verði engu komið í verk og tómt mál að tala um heildarpakka framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu til fimmtán ára eins og sakir standa. „Í mínum huga má allt eins tala um tíu þriggja ára tímabil frekar en eitt fimmtán ára framkvæmdatímabil,“ segir Bjarni. 

Tekið var við spurningum úr sal.
Tekið var við spurningum úr sal. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miklabraut í stokk óraunhæf framkvæmd    

Þetta kom fram þegar Bjarna ávarpaði fundargesti á fundi Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðismanna, um samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins i Valhöll síðdegis í gær. Bjarna hefur verið tíðrætt að undanförnu um það gríðarlega kostnaðarauka sem blasir við miðað við fyrri áætlanir. Þannig hafi kostnaður nær tvöfaldast frá árinu 2019 ef miðað er við áætlanir. 

Sagði Bjarni nýlega í aðsendri grein í Morgunblaðinu undir yfirskriftinni Villumst ekki í skógi ófjármagnaðra framkvæmda að heildarkostnaður vegna samgöngusáttmálans verði ekki 160 milljarðar, líkt og verðbætt áætlun gerði ráð fyrir (120 milljarðar árið 2019), heldur um það bil 300 milljarðar.

Nefnir hann t.a.m. að áætlun um að setja Miklubraut í stokk hlaupi nærri 50 milljörðum og sé óraunhæf framkvæmd í núverandi mynd. 

Stofnvegaframkvæmdir á ís frá 2012 

Bjarni telur að almenningssamgöngur séu mikilvægar en engu að síður gangi ekki að stofnvegaframkvæmdir séu látnir bíða út í hið óendanlega. Þannig hafi ekkert verið gert í stofnvegaframkvæmdum í Reykjavík frá árinu 2012. Á sama tíma fjölgi íbúum á höfuðborgarsvæðinu um 4.000 árlega.

Húsfyllir var á fundinum.
Húsfyllir var á fundinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gat ekki hlustað á fólk lengur 

„Ég gat ekki lengur hlustað á fólk tala um að setja undir sig hausinn og allt myndi verða í lagi,“ segir Bjarni um ástæður þess að hann skrifaði grein sína þar sem hann benti á að fyrirhugaðar framkvæmdir væru ekki fjármagnaðar. 

„Þegar ég kom að sáttmálanum lá fyrir að ríkið þyrfti að koma að 60 milljarða gati hvað varðar fjármögnun á samningnum. Ég hugsaði þá. Ég held að við náum að kljúfa þetta á 15 árum,“ segir Bjarni. Það mætti meðal annars gera með því koma eignum í verðmæti. 

Fljótlega hafi tónninn hjá sveitarfélögunum hins vegar tekið að þyngjast. Fljótlega hafi komið í ljós að almenningssamgangnakerfið hafi t.a.m. reynst dýrara en menn gerðu ráð fyrir. 

Hefur setið ansi marga fundi 

„Ég hef setið ansi marga fundi þar sem sveitarfélögin hafa viljað að ríkið komi að rekstri borgarlínu,“ segir Bjarni á fundinum. 

Hann segir það sína skoðun að ekki sé ástæða til að byrja á byrjunarreit, heldur þurfi að láta raunsæi ráða för. „Þessi staðreynd breytir því ekki að það er mikilvægt að þétta göngustíga og hjólreiðastíga. En það skiptir máli hvort þeir kosta núna 30 milljarða en ekki 10 milljarða eins og talað var um,“ segir Bjarni.

Eitt af því sem Bjarni lagði til er að ráðast í breytingar á almenningssamgöngum en hafa þær smærri í sniðum til að byrja með. „Ég veit að sumir á fundinum halda að við séum að fara gera gljáfægðar lestar sem verða hálftómar. En það verður ekki,“ segir Bjarni og uppskar hlátur í salnum. 

Vill ekki borga þetta og ekki reka þetta 

Bjarni skaut á Samfylkinguna í borginni sem hafi eignað sér borgarlínumálið sem sveitarfélögin skrifuðu öll undir. „Nú liggur fyrir að hún vill ekki borga fyrir þetta og ekki reka þetta. Hvernig er þetta þá hennar mál,“ segir Bjarni og uppskar hlátur viðstaddra.  

Hann sagði að flestar stofnvegaframkvæmdir sem settar hafi verið á blað séu mikilvægar og þó hann hafi bent á skort á fjármögnun framkvæmda þá sé það hans skoðun að mikilvægt sé að fara ekki með samgöngusáttmálann á byrjunarreit.  

Við þurfum að byrja á því að vera innan kostaðaráætlunar og forgangsraða eftir mikilvægi. „Ég er þeirrar skoðunar að þetta þurfi að vera blanda af ólíkum ferðamátum,“ segir Bjarni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert