Fyrirtaka í máli Maciej Jakub Tali sem ákærður er fyrir að hafa ráðist að meðleigjanda sínum með hníf á þjóðhátíðardaginn 17. júní í Drangahrauni í Hafnarfirði, með þeim afleiðingum að meðleigjandinn lést af sárum sínum, átti að fara fram í dag en féll niður.
Aðalmeðferð í málinu er fyrirhuguð 9. október.
Elimar Hauksson, skipaður verjandi ákærða, áskildi sér rétt til þess að kveða matsmann í málinu. Fallið var frá þeim áformum og er aðalmeðferð í málinu því fyrirhuguð í Héraðsdómi Reykjaness þann 9. október.
Maðurinn er sakaður um að hafa stungið meðleigjanda sinn fimm sinnum með hníf, þar af voru þrjár í efri hluta búks. Ein þeirra er talin hafa valdið dauða meðleigjandans, en stungan náði inn í hjarta.
Maðurinn neitaði sök við þingfestingu málsins og bar fyrir sig neyðarvörn eða sjálfsvörn eins og hann orðaði það sjálfur, segir Elimar.
Samkvæmt heimildum mbl.is er búið að meta sakhæfi í málinu og maðurinn sakhæfur.