„Dýrið er komið á verri stað en það var“

Björgunarsveitir bíða nú eftir næsta flóði. Búið er að leggja …
Björgunarsveitir bíða nú eftir næsta flóði. Búið er að leggja rök teppi yfir dýrið. Ljósmynd/Kristján Ingi

Matvælastofnun biðlar til almennings að nálgast ekki háhyrninginn sem liggur strandaður í Gilsfirði. Ekki hefur tekist að bjarga dýrinu en vonast er eftir því að flóð muni reka hvalinn aftur út á sjó um miðnætti.

Þóra Jóhanna Jónasdóttir, dýralæknir hjá Matvælastofnun, segir að öll snerting við hvalinn geti aukið streitu og þar með minnkað lífslíkur dýrsins. Þóra segist hafa heyrt af því að fjöldi manns hafi safnast við fjöruna og fólk sé farið að ganga að dýrinu.

Greint var frá því á mbl.is að björgunarsveit vinni að því að koma háhyrningnum aftur út á sjó.

„Erfið staða“

„Þetta eru erfiðar aðstæður,“ segir Þóra Jóhanna í samtali við við mbl.is. Við síðasta flóð rak háhyrninginn lengra inn á land. Rök teppi verða lögð yfir hann til þess að halda húðinni rakri.

„Dýrið er komið á verri stað en það var.“

Hún segir að dýrið sé um sex metrar að lengd, og geti því verið fullvaxið. Teymið Hvalir í neyð, sem er stamstarfsverkefni meðal tengdra stofnana, viðbragðsaðila og sérfræðinga, meta nú hvernig best eigi að fara að því að koma dýrinu aftur á sjó.

„Við vorum að fá nýjar myndir og myndbönd til að meta ástandið.“

Reynir á líffærin

„Í fljótu bragði sýnist mér þarna vera ungt og nokkuð hraust karldýr. Hann er vel stálpaður svo ekkert ungviði en miðað við bakugga þá á hann enn nokkuð í að ná fullri stærð,“ segir Edda Elísabet Magnúsdóttir, doktor í líffræði og hvalasérfræðingur.

„Öndunarhljóðin eru góð að heyra. Þetta reynir á líffærin hans en vonandi hefur hann þetta af greyið. Þrátt fyrir að vera ansi rispaður eftir volkið virðist hann hraustur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert