„Erum bara rétt byrjuð í vegferðinni“

Stefán Vagn Stefánsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis.
Stefán Vagn Stefánsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis. mbl.is/Sigurður Bogi

Stefán Vagn Stefánsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segir stórt og mikið verkefni fram undan hjá fjárlaganefndinni að fara yfir fjárlögin en Bjarni Benediktsson fjármálaráherra kynnti frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2024 í síðustu viku.

„Við erum bara að byrja yfirferðina yfir fjárlögin og erum að fá ráðuneytin inn til okkar til að fara yfir sína málaflokka, hagstofuna og fleiri aðila,“ ssagði Stefán Vagn þegar mbl.is náði tali af honum en hann var þá staddur á fundi fjárlaganefndar, sem hófst klukkan 8 í morgun.

„Þetta er bara hefðbundinn fundur fjárlaganefndar þar sem við erum að fá umsagnar-og fagaðila til okkar. Mér sýnist að við verðum með þessa fundi á hverjum föstudegi fram að jólum þar sem efnið er það yfirgripsmikið sem við þurfum að fara yfir,“ segir Stefán Vagn, sem tók við formennsku af Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur á dögunum, en Stefán hefur átt sæti í fjárlaganefnd þingsins undanfarin tvö ár.

Engin fjárlög rúllað í gegn án breytinga

„Það erum margar stofnanir og sveitarfélög sem vilja ræða við fjárlaganefnd í kjölfarið á útkomnu fjárlagafrumvarpi og við munum reyna eftir okkar bestu getu að ná samtali við þá aðila sem vilja koma fyrir nefndina. Það er verðugt verkefni vetrarins. Þetta er stórt og mikið verkefni sem mér og okkur í fjárlaganefndinni hefur verið falið,“ segir Stefán Vagn.

Spurður hvort hann haldi að það verði mikið um breytingar á fjárlögunum segir Stefán:

„Ég þori bara ekki að segja það. Eflaust verða einhverjar breytingar og viðbætur gerðar. Það hafa engin fjárlög rúllað í gegn án þess að það komi breytingar. Þær voru kannski óvenju margar í fyrra en ég á ekki von á sambærilegum pakka. Mér þykir það ólíklegt en það er bara alltof snemmt að rýna í það núna. Við erum bara rétt byrjuð í vegferðinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert