Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra mun ekki mæla fyrir frumvarpi fyrirrennara síns í embætti, Jóns Gunnarssonar, um sameiningu sýslumannsembætta á löggjafarþinginu sem er nýhafið.
Guðrún tilkynnti sýslumönnum um ákvörðun sína á sýslumannadegi í dag.
„Ég hef meiri áhuga á að fylgja eftir þessari stefnumótunarvinnu sem hefur átt sér stað hér í ráðuneytinu.“
Ráðuneytið kynnti skýrslu í mars 2021 þar sem fjallað var um stefnumótun um sýslumannsembættin til framtíðar og umbætur í þjónustu og rekstri.
Segist ráðherra ætla að hafa skýrsluna að leiðarljósi og gefa sér nokkra mánuði til að fara yfir málið.
„Það var mikil andstaða í þingflokkum við frumvarpið eins og það var, einnig innan stjórnarflokkanna. Þannig að frumvarpið fór aldrei út úr þingflokkum.“
Guðrún segir þó að það sé ljóst að hún horfi til þess að hagræða, bæta þjónustu og að efla embættin.
„Ég vil leita leiða til að vinna meira þvert á embætti þannig að verkefnin geti flotið meira á milli og álagi verði dreift betur. Þar með að bæta stjórnunina og reksturinn.“
Segist hún einnig vera á þeim stað að hún vilji efla starfsemina um land allt.