„Hollt að gera upp erfið mál fortíðar“

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir mikilvægt að horfast í augu við …
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir mikilvægt að horfast í augu við og viðurkenna mistök fortíðarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er auðvitað stórt femínískt mál, að viðurkenna framgöngu íslenskra yfirvalda gagnvart þessum konum,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra varðandi til­lögu til þings­álykt­un­ar um rann­sókn á vinnu­hæl­inu á Klepp­járns­reykj­um.

„Það eru auðvitað mörg mál úr fortíðinni, þetta eitt af þeim, sem kalla á rannsókn og það finnst mér vera þingsins að taka afstöðu til,“ segir Katrín í samtali við blaðamann mbl.is. 

Rætt um hættulegar vændiskonur

22 þingmenn lögðu fram tillöguna og er þverpólitísk samstaða um málið innan Alþingis. Í tillögunni kemur fram að Alþingi álykti að fela for­sæt­is­ráðherra að skipa nefnd til að rann­saka starf­semi vinnu­hæl­is­ins á Klepp­járns­reykj­um á ár­un­um 1942–1943. Sérstaklega verði aðgerðir íslenskra yfirvalda gegn samskiptum íslenskra stúlkna við erlenda hermenn rannsakaðar. 

Fjöldi íslenskra kvenna voru sendar á hælið til að sporna við sam­skipt­um þeirra við er­lenda her­menn í kjöl­far her­náms­ins 1940. Sett var á lagg­irn­ar sér­stök ástands­nefnd og rætt um hættu­leg­ar vænd­is­kon­ur sem taka þyrfti úr um­ferð. 

Katrín vakti sjálf máls á málefninu í þinginu árið 2015, í kjölfar sýninga á heimildarmyndinni Stúlkurnar og kveðst telja mikilvægt að mál sem þetta séu rædd í dag. 

Samskipti erlendra hermanna við íslenskar stúlkur sköpuðu ólgu í samfélaginu …
Samskipti erlendra hermanna við íslenskar stúlkur sköpuðu ólgu í samfélaginu á sínum tíma.

Vinnur að rammagerð sanngirnisbóta

„Oft er hægt að segja hafi bara verið tíðarandinn, en það breytir því ekki að framkoma af hálfu hins opinbera, þó að það sé fólk sem er löngu horfið, það er samt framkoma af hálfu hins opinbera sem er mikilvægt að horfast í augu við og viðurkenna.“  

Katrín kveðst sjálf vera við að leggja lokadrög að frumvarpi, sem hún vonast til að geta lagt fyrir þingið fyrir mánaðamótin, en að sögn Katrínar byggir frumvarpið á norskri fyrirmynd ásamt ráðleggingum fyrri vistheimilanefnda. 

Frumvarpið varðar rammagerð utan um sanngirnisbætur, en forsætisráðherrann segir það hafa orðið sér ljóst við eftirgrennslan í máli Kleppjárnsreykja-kvennanna, að brýn þörf væri á slíkum ramma. 

Hún segir gerð slíks ramma þó ansi flókna enda séu margar spurningar sem vakni um hverjir eigi að geta leitað til ríkisins vegna misgjörða og hvernig eigi að meta slíkar misgjörðir. 

Gera upp fortíðina til að læra inn í framtíðina

Aðspurð hvort þverpólitísk samstaða um tillöguna beri vitni um mikilvægi sanngirnisbótanna, segir Katrín samstöðuna klárlega undirstrika mikilvægi þess að gera upp fortíðina. 

„Eins og þessum málum hefur verið háttað var sannfæring fólks að málum fortíðar væri lokið, en það er auðvitað ekki þannig,“ segir Katrín og segir ýmislegt hafa tíðkast hér áður fyrr gagnvart viðkvæmum hópum. Í þessu tilfelli konum, en einnig gangvart börnum og fötluðum málefni hvers hafa einnig verið rædd í þinginu. 

„Ég held að það sé hverju samfélagi hollt að gera upp erfið mál fortíðar til að geta lært af þeim inn í framtíðina því við erum því miður líka með mál sem eru ansi nær okkur í tíma.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert