Ruslahrúga í Heiðmörk rakin til Facebook

Jónas segir að verktaki á fésbókarhópnum „Vinna með litlum fyrirvara“ …
Jónas segir að verktaki á fésbókarhópnum „Vinna með litlum fyrirvara“ hafi skilið ruslið eftir á víðavangi. Ljósmynd/Aðsend

Jónasi Björgvinssyni brá heldur betur í brún þegar hann rakst á sorphrúgu á hjólaferð í Heiðmörk. Segir hann að mikið rusl á víðavangi sé afleiðing þess að fólk noti vafasaman hóp á Facebook til að finna ódýrt vinnuafl.

„Við hjónin vorum á hjólatúr um daginn í Heiðmörkinni,“ segir Jónas í samtali við mbl.is „Og þá hjólum við að þessum haug af rusli. Papparusl og plast og einangrunarplast. Þessu hefur greinilega verið sturtað úr sendiferðabíl.“

Í hrúgunni fannst papparusl og einangrunarplast.
Í hrúgunni fannst papparusl og einangrunarplast. Ljósmynd/Aðsend

Vinna með litlum fyrirvara

Jónas segir að þá hafi hjónin komið ruslinu fyrir í skottinu á bílnum sínum og flutt það í grenndargáma í Reykjavík. Kveðst hann hafa fundið umbúðir utan af þvottavél sem voru merktar nafni og heimilisfangi. Fann hann þá símanúmer viðkomandi sem reyndist vera ung kona búsett í Reykjavík.

„Svo hringdi ég í þessa konu og hún var náttúrulega alveg eyðilögð. Eins og mig grunaði hafði hún sett inn færslu á fésbókarhópinn Vinna með litlum fyrirvara,“ segir hann en eins og nafnið gefur til kynna getur fólk þar auglýst þar eftir vinnu með litlum fyrirvara. Rúmlega 75 þúsund manns eru í hópnum.

Þá hafði konunni borist ódýrt tilboð frá manni, sem talaði ekki íslensku og afar litla ensku, sem bauðst til þess að losa hana við ruslið, en hún ekki vitað að hann myndi skilja það eftir á víðavangi – hvað þá á griðlandi.

Hjónin komu ruslinu fyrir í bílnum sínum og fluttu það …
Hjónin komu ruslinu fyrir í bílnum sínum og fluttu það á sorphirðustöð. Ljósmynd/Aðsend

Ábyrgðin á Íslendingunum

„Mér finnst aðalábyrgðin vera hjá okkur neyslufrekum Íslendingum, sem erum í framkvæmdum og svoleiðis. Svo viljum við losna við rusl strax og fyrir ekki neitt.“ segir hann. „Maður heyrir náttúrulega ótal sögur af þessu.“

„Það má alveg segja að þetta endi oft einhvers staðar í umhverfinu, eins og þegar verið er að sækja rusl eftir opnunartíma hjá endurvinnslustöðum,“ bætir hann við. „Þetta stakk mann alveg í hjartað. [Heiðmörk] er griðland og vatnsból.“

Í kjölfar þessa atviks birti hann færslu á hópnum Vinna með litlum fyrirvara, þar sem hann sagði að fólk ætti að skammast sín.

„Þessi síða stuðlar bara að náttúruspjöllum, svindli og skattsvikum. skammist ykkar og hættið viðskiptum hér og snúið ykkur að löglegum fagaðilum. Þetta er bara rugl,“ segir í færslu Jónasar á Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert