Skjót leið til að leysa bráðan „rekstrarvanda“ MA

Hálfdán spyr hvort um sé að ræða óhapp í ráðuneytinu …
Hálfdán spyr hvort um sé að ræða óhapp í ráðuneytinu við meðhöndlun á brothættu reiknilíkani eða meðvitaða pólitík? Spyr hann hvort verið hafi að hanna atburðarás? Samsett mynd/mbl.is/Kristján Kristjánsson/Magrét Þóra

Hálfdán Örnólfsson, fyrrverandi aðstoðarskólameistari við Verkmenntaskólann á Akureyri, gefur í skyn að Menntaskólinn á Akureyri hafi verið fjársveltur frá styttingu náms í framhaldsskólum 2018 og til dagsins í dag.

Bendir Hálfdán á þetta í aðsendri grein á akureyri.net og birtir opinber gögn máli sínu til stuðnings.

Sláandi samanburður

Segir Hálfdán í grein sinni að vitað hafi verið að ef ekkert væri gert til mótvægis við styttingu náms hafi mátt búast við að nemendum myndi fækka um allt að fjórðung og framlög til skólanna að sjálfsögðu skerðast mjög verulega.

Hann skoðaði hvernig sjö stærstu bóknámsskólunum hefur vegnað og gerði samanburð á þróun ársnemenda annars vegar og fjárheimildum, eins og þær birtast í ársreikningum skólanna, hins vegar. Bar hann saman árið 2018 annars vegar og árið 2022 hins vegar og reiknaði fjárheimildir á föstu verðlagi með vísitölu neysluverðs.

Hálfdán komst að því að samanburðurinn væri sláandi. Í ljós kom að Menntaskólinn á Akureyri hefur farið verr út úr ferlinu heldur en nokkur annar skóli hvað varðar nemendafjölda og fjárveitingar, skólinn misst fjórðung nemenda og tíunda hluta fjárveitinganna.

Fékk ekki að fjölga þrátt fyrir nægilega aðsókn

Veltir aðstoðarskólameistarinn fyrrverandi fyrir sér ástæðum þessa og kemst meðal annars að því að MA hafi ekki fengið heimild til að fjölga nemendum þrátt fyrir nægilega aðsókn, ólíkt mörgum öðrum skólum.

Spyr hann hvort um sé að ræða óhapp í ráðuneytinu við meðhöndlun á brothættu reiknilíkani eða meðvitaða pólitík? Spyr hann hvort verið hafi að hanna atburðarás?

Segir hann mikið gert úr rekstrarörðugleikum MA í skýrsluviðauka Pricewaterhouse Coopers en segir þessa örðugleika varla hafa verið til staðar ef MA hefði fengið að bæta við nemendum líkt og hinir stóru bóknámsskólarnir.

Fullt tilefni til að jafnvel bæta skaðann

„Mér sýnist að hin sérstaka og mjög svo óréttláta meðhöndlun á Menntaskólanum Akureyri, sem ofangreindar tölur gefa til kynna, sé fullt tilefni til að endurskoða heimild skólans til að taka inn nemendur og jafnvel bæta honum skaðann sem þessi meðhöndlun hefur trúlega valdið honum síðustu árin.

Þetta er skjót leið til að leysa hinn bráða „rekstrarvanda“ MA og gefur gott ráðrúm til að veita öllum þeim, sem erfiði og þunga eru hlaðnir vegna þeirrar makalausu atburðarásar sem sameiningarhugmyndir ráðherra hafa hrundið af stað, kærkomið hlé og næði til að sinna sínum daglegu störfum og skyldum,“ sem segir í grein Hálfdáns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert