Vill bakfæra greiðslu til SKE

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Af minni hálfu snýst þetta um það að bakfæra þessa greiðslu,“ segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra, varðandi greiðslu ráðuneytisins til Samkeppniseftirlitsins (SKE) fyrir framkvæmd athugunar á stjórn­un­ar- og eigna­tengsl­um sjávarútvegsfyrirtækja, sem ráðuneytið átti frumkvæði að.

„Það er það sem samskipti míns ráðuneytis og Samkeppniseftirlitsins snúast um á næstu dögum.“

Ákvörðun SKE felld úr gildi 

SKE ákvað í júlí að beita sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækið Brim hf. 3,5 millj­ón króna dag­sekt­um, hæstu dag­sekt­um í sögu eft­ir­lits­ins, til þess að knýja á um að fyr­ir­tækið af­henti því all­ar umbeðnar upp­lýs­ing­ar í tengsl­um við at­hug­unina. 

Brim áfrýjaði málinu til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, en nefndin komst að þeirri niðurstöðu að beiting dagsektanna væri ólögmæt og felldi úr gildi ákvörðun eftirlitsins.

Samtök atvinnulífsins sendu frá sér yfirlýsingu í kjölfarið þar sem þau áréttuðu mikilvægi meðalhófs í upplýsinga- og gagnaöflun eftirlitsins. 

Gagnsæi í samfélaginu til bóta

Sjávarútvegsfyrirtækið G.Run krafðist þess að gögn og upplýsingar sem fyrirtækið hefði látið eftirlitinu í té yrði skilað tafarlaust og niðurstöðum athugunarinnar eytt, í kjölfar úrskurðar áfrýjunarnefndar.

Í bréfi til SKE kvaðst framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Guðmundur Smári Guðmundsson, setja fyrirvara við lögmæti gagnabeiðninnar sem hann sagði lið í pólitískri heildarstefnu ráðherra.

Innt eftir viðbrögðum við ummælum SA og G.Run svarar Svandís: 

„Ég held að gagnsæi í samfélaginu sé til bóta og ég held að það sé mikilvægt að atvinnustarfsemi í landinu sé þannig að hún hafi ekkert að fela.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert