Hin nýja skrifstofubygging Alþingis er talsvert á eftir áætlun. Áformað var að taka hana í notkun áður en þing hæfist á þessu hausti en það gekk ekki eftir. Óljóst er á þessari stundu hvenær framkvæmdum lýkur.
„Enn er þó verið að vinna að frágangi við nýbygginguna og ég ætla því ekki að fara með nákvæma dagsetningu á því hvenær flutt verður. Ég tel þó fullvíst að við munum flytja inn áður en haustþingi lýkur.“
Þetta sagði Birgir Ármannsson forseti Alþingis við setningu 154. löggjafarþingsins 12. september sl. Haustþinginu lýkur rétt fyrir jól en varla mun dragast svo lengi að ljúka framkvæmdum.
Nær er að tala um einhverjar vikur, eins og Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri Alþingis sagði í viðtali við Morgunblaðið á dögunum.
Leitað var skýringa hjá Rögnu hvað hefði tafið framkvæmdirnar.
„Verkið hefur tafist vegna ýmissa þátta eins og gengur og gerist, meðal annars vegna áhrifa heimsfaraldursins og stríðsins í Úkraínu. Uppsteypa hússins var flókin og tók mun lengri tíma en gert var ráð fyrir, það voru tafir vegna glugga og svo er steinklæðningin utan og innan í húsinu einstök en einnig tímafrek.“
Er það rétt sem talað hefur verið um að mistök hafi verið gerð með kaup á gluggum?
„Miklar kröfur eru gerðar varðandi glugga í húsinu hvað varðar vind- og vatnsálag. Verktaki leggur til og gengur frá gluggum í húsið. Fyrstu gluggarnir sem komu stóðust ekki álagspróf og þurfti því að gera á þeim breytingar til þess að þeir að þeir uppfylltu allar kröfur.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag