Á annan tug skjálfta nærri Geitafelli

Alls hafa 14 skjálftar mælst á svæðinu, sem tilheyrir meira …
Alls hafa 14 skjálftar mælst á svæðinu, sem tilheyrir meira Suðurlandsbrotabeltinu en jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga. Kort/Map.is

Jarðskjálftahrina hófst nærri Geitafelli, norðvestur af Þorlákshöfn, snemma í morgun.

Fyrsti skjálftinn reið yfir upp úr klukkan fimm í morgun. Þrír skjálftar hafa náð 2 að stærð og riðu þeir yfir milli 13 og 16. Sá stærsti mældist 2,6 að stærð á fjórða tímanum.

Alls hafa 14 skjálftar mælst á svæðinu, sem tilheyrir meira Suðurlandsbrotabeltinu en jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga.

Venjulegir skjálftar

Sigríður Kristjánsdóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir um mjög venjulega skjálfta að ræða.

„Það eru flekaskil sem liggja á þessu svæði og sprungur þar sem virkjast öðru hvoru. Þarna erum við komin meira yfir í áhrif sem eru svipuð og á Suðurlandsbrotabeltinu, svona smá blanda.“

Ekki verið mikil virkni á þessu svæði

Sigríður segir að það hafi verið smá virkni á svæðinu í ágúst en þá hafi skjálftarnir verið mun minni en þeir sem mældust í dag.

„Það koma öðru hverju skjálftar alls staðar þarna á Reykjanesskaganum og yfir á Suðurlandið. Það hafa komið skjálftar öðru hverju þarna í Þrengslunum og við Lambafellið.

Það hefur kannski ekki verið mikil virkni akkúrat á þessu svæði en þetta er samt bara hluti af heildarmynd,“ segir Sigríður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert