Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn alþjóðasviðs ríkislögreglustjóra, segir hættustig hryðjuverka enn óbreytt, en það var hækkað í kjölfar afléttingar gæsluvarðhalds sakborninganna í hryðjuverkamálinu svokallaða.
Í samtali við mbl.is segir Karl Steinar mat hættustigsins lifandi mat sem sé endurmetið að gefnu tilefni, en ekki á neinum ákveðnum tímum.
„Við höfum ekki séð tilefni til þess að lækka það eða gera breytingu á þeim stað sem við erum á í dag,“ segir Karl Steinar.
„Það er þá frekar tengt því ef okkur fyndist hafa slaknað á einhverri spennu sem við værum að horfa til eða einhverju ástandi. Eða ef það væri aukning á einhverju. Þá myndum við skoða hvort við teldum okkur vera á réttum stað.“
Hættustigin eru fimm talsins og fylgja svipuðum viðmiðum og hinar Norðurlandaþjóðirnar, en Ísland var áður aðeins með fjögur hættustig, líkt og skalinn sem Finnland fylgir enn.
Hættustigið var hækkað úr tvö upp í þrjú í kjölfar þess að Landsréttur aflétti gæsluvarðhaldi yfir Sindra Snæ Birgissyni og Ísidóri Nathanssyni í hryðjuverkamálinu, þann 13. desember 2022.
Aðspurður hvort til greina kæmi að lækka hættustig aftur ef sakborningarnir tveir yrðu sakfelldir segir Karl Steinar það vissulega geta komið til greina í mati ríkislögreglustjóra á hættustigi vegna hryðjuverka.
„Það gæti alveg verið, eins og ég segi þá er þetta alveg lifandi plagg.“
Nokkrir samverkandi þættir hafi leitt til þess að hættustigið var hækkað á sínum tíma að sögn Karls Steinars, en hann segir þróunina benda til aukinnar getu í tengslum við vopnaframleiðslu og upplýsingaöflun í tengslum við framkvæmd slíkra glæpa.
Þar nefnir hann sem dæmi þrívíddarprentun vopna, en einnig netspjöll, sem tengi öfgafulla einstaklinga við aðra sem séu sama sinnis.
Hann segir slíkt einnig eiga rætur sínar að rekja til stríðsástands í Evrópu, en Karl Steinar segir söguna sýna að stríðsástand ýti undirliggjandi samfélagslegum þáttum, tengdum hryðjuverkum, upp á yfirborðið.