Nemendum Flugskóla Reykjavíkur mun fjölga umtalsvert í kjölfar þess að samkomulag náðist við Flugakademíu Íslands (FÍ) um að Flugskólinn myndi taka að sér virka nemendur FÍ, en FÍ mun hætta rekstri vegna fjárhagsörðugleika.
Þetta segir Hjörvar Hans Bragason, skólastjóri Flugskóla Reykjavíkur, í samtali við mbl.is. Leggst breytingin vel í hann og kveður hann aðalatriðið vera að tryggja áfram góða menntun.
„Við erum búnir að reka flugvélar af þessari stærðargráðu í tæplega tíu ár og verið með skólann síðan 2019. Við leggjum bara upp með því að geta staðið við þá tímalínu sem við gáfum nemendum og við göngum frá Þessum kaupum á eignum FÍ með að leiðarljósi að láta núverandi nemendur ganga fyrir,“ segir Hjörvar.
Hann segir að fyrir fyrrum nemendur FÍ verði breytingarnar afar litlar. Það sem mun þó breytast er að þeir nemendur sem voru í bóklegu námi við skóla Keilis í Reykjanesbæ munu nú læra hjá Flugskóla Reykjavíkur í Kópavogi. Eina sem verður eftir í Reykjanesbæ verða tveir flughermar sem verða þar áfram.
„Við erum með sömu skýli, aðstöðu, kennara, flugvélar og flugherma. Það verður voðalega lítil breyting sem hin almenni nemandi upplifir. Við höfum allan búnað og innviði til þess að sinna kennslunni eins og ekkert hafi í skorist.“
Það eru ákveðnar áskoranir fram undan hjá skólanum að sögn Hjörvars en viðvarandi flugkennaraskortur setur smá strik í reikninginn. Verið sé að vinna í því að fjölga kennurum.
„Sú vinna er þegar hafin og miðar vel áfram. Við ætlum að bæta við reynslumeiri flugmönnum sem voru að kenna fyrir einhverjum árum. Nú starfa þeir hjá íslensku flugfélögunum en vilja miðla áfram reynslu sinni.“
Hann viðurkennir að fyrir skólann sjálfan þá sér reksturinn „gjörbreyttur“ en að þau séu tilbúin í verkefnið.
„Okkar stefna er að halda ótrauðir áfram með fyrsta flokks flugnám á Íslandi, efla samstarf við íslensku flugfélögin og halda áfram að framleiða bestu flugmenn í heimi,“ segir Hjörvar að lokum.