Ellefu hressir Skagamenn fóru í síðasta mánuði í svokallaða enduro-mótorhjólaferð til rúmensku borgarinnar Sibiu. Í hópnum var Sveinbjörn Reyr Hjaltason sem lamaðist fyrir neðan brjóst í mótorhjólaslysi vorið 2020 við rætur Akrafjalls.
Þetta var í annað sinn sem hópurinn sótti rúmensku borgina heim, en síðasta ferðin var farin árið 2019. Hópurinn hefur hjólað saman í um tíu ár og farið í hinar ýmsu ferðir hérlendis, þar á meðal upp á hálendið, auk þess sem svæði við Akrafjall, Skarðsheiði og Heklu hafa verið vinsæl. Í ferðinni til Rúmeníu var yngsti ferðalangurinn á þrítugsaldri en sá elsti á sjötugsaldri.
Þegar ákveðið var að fara aftur til Rúmeníu kom ekki annað til greina en að Sveinbjörn Reyr yrði með í för, líkt og í síðustu ferð, þrátt fyrir fötlun hans. „Við vildum endilega að hann kæmi með. Hann var rosa spenntur en hafði áhyggjur af því að þetta yrði mikið vesen fyrir okkur,” segir Ólafur Páll Sölvason, vinur Sveinbjörns og hluti af vinahópnum.
Hann segir hópinn hafa verið einhuga í því að Sveinbjörn færi með. Þeir hafi vitað að ferðin yrði aðeins öðruvísi en sú síðasta en að allt hafi gengið virkilega vel þegar á hólminn var komið.
Fjórir hjóladagar voru skipulagðir og voru allir á mótorhjólum nema Sveinbjörn sem ferðaðist um á fjórhjóli. Leiðsögumenn voru þeim til halds og trausts. Fyrstu daginn hjóluðu allir saman en síðar var skipt liði, enda ekki allar leiðir færar fjórhjólum.
Nokkrir úr hópnum ákváðu svo að taka einn aukadag, þar á meðal Ólafur Páll og Sveinbjörn, og óku þeir eftir fjallveginum Transfagarasan sem sjónvarpsmenn breska þáttarins Top Gear útnefndu eitt sinn besta akveg í heimi.
Ólafur Páll segir ekki annað hægt en að dást að elju og þrautseigju Svenna, sem hljóti að vera öðrum hvatning sem eru í sambærilegri stöðu. „Hann er alveg ótrúlega magnaður.”
Spurður út í ferðalagið segir Sveinbjörn að sér hafi fundist það fjarstæðukennt þegar hópurinn byrjaði að stinga upp á því að hann kæmi með. „Fyrst þeir stungu upp á þessu þá gat ég ekki neitað, sem betur fer,” segir hann. Þrátt fyrir áhyggjur fyrirfram af ýmsu í tengslum við ferðina, m.a. varðandi fjórhjólið og allan aðbúnað, gekk allt eins og í sögu. Skemmtu allir sér konunglega í alls konar aðstæðum og torfærum.
Þú sérð varla eftir því að hafa skellt þér með?
„Alls ekki. Það var eiginlega ótrúlegt að upplifa þetta aftur, að komast þarna upp í fjöllin. Þó að maður færi ekki í allar torfærurnar þá fékk maður helling út úr þessu. Ég er þeim mjög þakklátur að hafa dregið mig með,” segir Sveinbjörn.
Inntur eftir því hvort hann hafi engu gleymt þrátt fyrir slysið örlagaríka segir hann aksturstæknina alla vera í höfðinu og það hafi sem betur fer ekki skaddast. Viðbragðið sé því ágætt og engin klaufaleg atvik hafi komið upp í rúmensku fjöllunum, nema kannski þegar hann rak sig eitt sinn í bensíngjöfina, sitjandi á fjórhjólinu sem var í gangi og hjólið tók kipp. „Ég held að leiðsögumaðurinn hafi fengið svolítið sjokk þegar ég lá þarna á hjólinu hreyfingarlaus og gat ekki reist mig upp. Hann þurfti að taka undir axlirnar á mér og ýta mér upp og eftir það gat ég keyrt allar mínar torfærur. Ég held að hann hafi áttað sig þarna á því hvað ég var mikið lamaður,” greinir Sveinbjörn frá. „Þetta var bara áminning um að maður er ekki alveg fær í flestan sjó.”
Sveinbjörn viðurkennir þó að akstur sem þessi taki á líkamlega. Þar sem hann er ekki með magavöðva þurfti hann að treysta alfarið á hendurnar í torfærunum. „Ég vaknaði upp á næturnar að drepast úr harðsperrum. Ég þurfti að reisa mig upp til að fá blóðflæði í þær og hrista þær til til að ég gæti haldið áfram að sofa,” segir hann. Ástandið lagaðist þó með tímanum þrátt fyrir mikið álag á hendurnar.
Þrátt fyrir að ferðin hafi gengið vel var aðgengi fyrir hjólastóla engu að síður ábótavant í Rúmeníu og kveðst Sveinbjörn hafa upplifað ástandið sem „ótrúlega mikil afturför” miðað við hér á landi. Ef hjólastólarampar voru til staðar, til dæmis við veitingastaði, voru þeir yfirleitt of brattir og þurftu stundum fjórir til fimm menn að hjálpa honum að komast áleiðis.
Spurður hvort hann hefði órað fyrir því að fara í ferð sem þessa eftir að hafa lamast í mótorhjólaslysinu kveðst Sveinbjörn hafa hugsað þegar hann lá á sjúkrahúsinu að hitt og þetta væri farið úr lífi sínu og kæmi aldrei aftur, þar á meðal mótorsportið.
„Svo hefur maður tínt af þeim lista alveg ótrúlega marga hluti sem maður er búinn að framkvæma eftir þetta. Það þarf bara að vera jákvæður og láta vaða,” segir hann ákveðinn og bætir við: „Lífið heldur áfram og ef maður ætlar ekki að taka þátt í því þá hverfur það.”
Sveinbjörn starfar sem bifvélavirki á Bílaverkstæði Hjalta á Akranesi, líkt og hann gerði fyrir slysið. Vinnudagurinn er frá klukkan 9 til 16 og þar hefur hann í nógu að snúast líkt og áður við að skipta um gírkassa, dekk og sinna ýmsum öðrum störfum. „Það eru ótrúlega mörg verkefni sem ég get leyst,” segir hann.
„Það var svipað með ferðina og þessa vinnu. Hjalti sagði mér bara að mæta. Við fyndum út úr því hvað við gætum gert. Mér fannst það fjarstæða líka en þetta hefur reddast alveg ótrúlega. Það bjargar sálartetrinu að geta haft fastan punkt. Hún er ótrúlega verðmæt þessi vinna.”
Uppi á Skaga og víðar ferðast Sveinbjörn um á sérgerðu hjóli sem 177 góðhjartaðir og hugdjarfir einstaklingar söfnuðu fyrir með því að stökkva ofan í sjóinn við Akraneshöfn. Á einu ári hefur hann hjólað næstum því 1.000 kílómetra og ekki er það verra að hann getur fest hjólastólinn sinn við tryllitækið. Eru honum því allir vegir færir.